135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:16]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér hefur staðið mikil umræða í allan dag um framhaldsskólafrumvarpið eins og það er komið frá hv. menntamálanefnd inn í þingið á nýjan leik. Auðvitað er margt gott um bæði þetta frumvarp að segja og breytingar sem gerðar hafa verið á því í nefndinni. Samt er það svo að öll mannanna verk orka tvímælis og það sem vakið hefur athygli mína eru heilmiklar deilur um þetta frumvarp og þessar tillögur, ekki bara hér í þinginu sjálfu heldur einnig í samfélaginu. Ég er mjög undrandi á því hvernig Samfylkingin virkar í þessu máli. Við erum búin að fara hér í gegnum tvö stór mál, leikskólann og grunnskólann þar sem tekist hefur mjög mikilvægt starf. Þingið hefur að reglu að ná mikilli samstöðu um slík mál en ekki síður við þá sem þekkja, eiga að njóta og starfa við þau fyrirtæki. Ég hygg að það verði heilmikil ánægja með þau mál.

Hér eru aftur miklar deilur og mér finnst það mjög athyglisvert hvernig Samfylkingin fer fram í þessu máli. Ég hef það á tilfinningunni að samfylkingarmenn vildu helst ræða það á nóttunni í skjóli myrkurs til þess að skoðanir þeirra og átök sem hér færu fram væru ekki lýðum ljós. Ég hef orðið þess var í þessari umræðu að margir fulltrúar stjórnarflokkanna tala af mikilli lítilsvirðingu um þær athugasemdir sem komið hafa fram, gera lítið úr þeim og segja nánast að um þessi mál séu engar deilur. Þær séu fyrst og fremst í þingsalnum og að hér séu þingmenn, ekki síst þingmenn Vinstri grænna, búnir að æsa fólk í landinu upp til þess að vera á móti frumvarpinu eins og það er komið fram. Þvílík framganga. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður má ekki taka allt til sín, þeir segja nú sitthvað hér úr Samfylkingunni og eru orðnir vanir að tala tungum tveim. Oft og tíðum er það svo að í stórmálum hafa þeir ekki hikað við að hafa aðra skoðun en Sjálfstæðisflokkurinn og hafa ekki hikað við að fara gegn Sjálfstæðisflokknum í stórum málum. En hér virðist vera mikil þjónkun við Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Það er mér mjög mikið undrunarefni af því að mér finnst að tillögur sem hingað hafa borist frá skólafólki og forráðamönnum skólanna — hingað hefur borist bréf frá Félagi framhaldsskólakennara með athugasemdum sem mér finnst að sumir þingmenn hafi gert lítið úr. Undir það skrifa Aðalheiður Steingrímsdóttur formaður og Magnús Ingólfsson, varaformaður Félags framhaldsskólakennara Kennarasambands Íslands.

Það sem mér sýnist að fólk fari fram á, af því að nú stendur þetta þing til hausts, hvort það sé ekki betra að setjast niður yfir sumarið og gá hvort ekki sé hægt að ná sátt um þetta mál eins og hin tvö. Hvað stendur í vegi fyrir því? Það er svo lítið sem gerist í þessum efnum í sumar þannig að það ætti að vera hægt að setjast niður með fag- og forustufólki skólanna og fara yfir þetta mál enn og betur. Til stendur að við komum saman hér í september og þá getum við farið yfir málið. Það er ekki bara að þessir forustumenn hafi skrifað hér mikið þar sem margar athugasemdir eru gerðar við málið heldur hafa komið hér nýjar og miklar athugasemdir frá um þriðjungi framhaldsskóla landsins, frá um þriðja hverjum framhaldsskóla á Íslandi eftir að sýnt var hvaða leiðir ríkisstjórnarflokkarnir ætla fara í málinu. Það finnast mér mikil mótmæli. Venja þingsins í áratugi hefur verið að reyna að ná sátt í svona stórum málaflokkum.

Ég sé það t.d. að hér hafa borist athugasemdir frá Menntaskólanum í Reykjavík á nýjan leik og frá Menntaskólanum á Akureyri. Þeir hafa nú verið taldir stór höfuð á því sviði. (Gripið fram í.) Þar væru engir aukvisar sem væru bæði læsir og með heyrn og kynnu að fara yfir þau mál sem hér hafa verið lögð fyrir þingið á nýjan leik. Hér er Verkmenntaskóli Austurlands, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Menntaskólinn við Sund, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Fjölbrautaskólinn í Vestmannaeyjum. (Gripið fram í: Þetta er ekki nema 1/3 af skólunum.) Það er nú dálítið mikið, 30%. (Gripið fram í: 66% ...) 33% eru nú stór í athugasemdum, (Gripið fram í: 66% eru ríflegur meiri hluti.) það er ríflegur meiri hluti, það er alveg rétt. Venjan hefur samt verið sú hér í þinginu í jafnstórum málum og þessum að það þykir dálítið mikið atriði að ná sátt við þá stóru sem málið varðar (Gripið fram í.) og 33% er stór andstaða í máli.

Nú skal ég ekkert segja um að allir þessir skólar og þessir forustumenn sem hingað hafa skrifað bréf — og lítið er gert úr athugasemdum þeirra — athugasemdir þeirra eru á mörgum sviðum stórvægilegar. En mér fyndist það virðing við þetta fólk og þessar miklu menntastofnanir að gefa því tækifæri í sumar að setjast niður með þingnefndinni eða skipa starfshóp úr þingnefndinni, stjórn og stjórnarandstöðu með þessu skólafólki til að fara yfir málið. Það er mín tillaga að sjá málið hér aftur á haustdögum í september undir septembersól, þá komið í þann búning að um það ríkti algjör samstaða. Það væri glæsilegri framganga. Hvað tíma málsins varðar þá skiptir í sjálfu engu hvort þetta mál verður að lögum þremur, fjórum mánuðum fyrr eða síðar, það breytir ekki málinu. Það er gæfulegra fyrir stjórnarflokkana að leita eftir samstöðu við þetta öfluga fólk sem vinnur svo mikið og gott starf í landinu.

Mér finnst sem Samfylkingin falli í það far í þessu máli að hún vill frekar taka mark á einhverjum öðrum en því fólki sem hún hefur haldið fram að hún styddi alveg sérstaklega og væri hér baráttusveit fyrir á hinu háa Alþingi. Ég hugsa að þegar allt kemur til alls sé héraskapurinn slíkur að þeir hlusti meira á Verslunarráðið og einhverja úr atvinnulífinu eða bankakerfinu eða hvaðan sem er, einhverja aðra sem senda inn hinar stöðluðu umsagnir um málið. Mér finnst þetta mikið virðingarleysi og þóknun Samfylkingarinnar við Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli kemur mér á óvart.

Hún hefur ekki hikað við að hafa tvær skoðanir í mörgu málum. Við fórum hér yfir hrefnumálið í dag, þar eru tveir hausar á ríkisstjórninni eða fleiri, já, það er sá þriðji, einn lítill í viðbót sem stendur með hvalveiðum. (Gripið fram í: Það er einn haus í þessu máli.) Það er einn haus í þessu máli af því að Samfylkingin hefur lotið Sjálfstæðisflokknum í gras, (Gripið fram í.) hún hefur kropið fyrir honum af einhverjum ástæðum (Gripið fram í.) sem enginn kennari á Íslandi skilur. (Gripið fram í: Við föðmumst hér á göngum.) Já, ég efast ekkert um það, það er rétt hjá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að þeir faðmast hér á göngum til þess að innsigla vinskap sinn og sameiningu í þessu máli. (Gripið fram í.) En það er eitthvað bogið við það samkomulag, það er eitthvað bogið við þá vináttu sem þar ríkir. Það er í sjálfu sér rannsóknarefni af hverju Samfylkingin, sem hefur gert sig mjög gildandi og talið sig vera verndara og baráttuflokk skólanna, skuli núna ætla að keyra framhaldsskólamálið áfram í óþökk og ósamstöðu eins og það var mikilvægt í hinum málunum að ná samkomulagi. Ég hef enga skýringu heyrt hér í öllum þeim ræðum sem fluttar hafa verið af hverju þeir vilja keyra þetta mál í óþökk, þeir hafa ekki sagt frá því í rauninni. Þeir gera lítið úr öllum þeim athugasemdum sem hér hafa komið inn og (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) segja að þær séu ekki af merkilegum toga. Ég hlustaði á umræður hér í dag hjá mörgum. (Gripið fram í.) Ég er ekki að segja að það séu allir, ég ætla ekki að bera það á hv. Sigurð Kára Kristjánsson, formann nefndarinnar, eða hv. þm. Guðbjart Hannesson sem hélt hér prýðilega ræðu sem ég hlustaði á áðan. Umræðan hefur samt verið í þessum dúr í dag að þetta væru svo sem ekki merkilegar athugasemdir og það væri fyrst og fremst andstaða og leiðindi hér í þingsalnum.

Við framsóknarmenn höfum aðra sögu að segja og höfum aðra skoðun. Við í Framsóknarflokknum höfum í áratugi haft mikinn áhuga fyrir menntamálum Íslendinga og við höfum auðvitað sem flokkur komið mikið að menntamálum Íslendinga. Ég fór yfir það í ræðu í gær að Framsóknarflokkurinn var í rauninni stofnaður um skólastarf og menntun alþýðunnar. Jónas frá Hriflu, alþýðuskólarnir, héraðsskólarnir, alþýðumenntunin sem er kannski mesta bylting sem fram hefur farið á Íslandi. Í rauninni er hún kannski eina byltingin sem átt hefur sér stað þar sem stjórnmálaflokkur með Alþýðuflokknum áttu í miklu og nánu samstarfi á þeim tíma. Nú er það nafn dáið og sá flokkur horfinn. En þessir flokkar höfðu mikil áhrif í gegnum tíðina í menntamálum og Framsóknarflokkurinn hefur gert sig gildandi. Ég heyrði að vísu að hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafði orð á því einhvern tíma að það hefði enginn haft áhuga á menntamálum í síðustu ríkisstjórn. Jú, Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, aðeins fyrst þegar hann kom á þing. Ég hálfmóðgaðist auðvitað. Ég var menntamálaráðherra landbúnaðarins á þeim tíma, breytti tveimur litlum framhaldsskólum, bændaskólum, á háskólastig. (Gripið fram í.) Þeir voru í sjálfu sér ekki stórar stofnanir þá, það voru rúmir 100 nemendur. Nú er þetta framsækið byggðahverfi, bæði Hvanneyri og Hólar, með töluvert á fimmta hundrað nemendur. Framsóknarflokkurinn hafði í þeirri ríkisstjórn eins og alltaf mikinn áhuga fyrir menntamálum og studdi auðvitað hæstv. menntamálaráðherra. Ég vil leiðrétta þennan misskilning enda er það svo, hæstv. forseti, að ef ég lít á ályktun Framsóknarflokksins um framhaldsskólastigið þá segir þar í stefnumiðinu:

Gera þarf framhaldsskólana aðlaðandi með auknum sveigjanleika og aukinni nærþjónustu við nemendur. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að framhaldsskólanám sé aðgengilegt ungu fólki frá lögheimili sínu daglega. Ekki kemur til greina að innheimta skólagjöld í opinberum framhaldsskólum. Leggja þarf aukna áherslu á fjölbreytni framhaldsskólanna með sérstaka áherslu á starfsnámið.

Það kom sérstaklega fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í dag að starfsnámið væri mjög mikilvægt og hafi lengi vel verið of lítill gaumur gefinn. Ég heyri að þar eigum við samleið í hugsun, ég og hv. þingmaður.

Jafnframt segir í þessari ályktun Framsóknarflokksins:

Tónlistarnám á framhaldsskólastigi verði viðurkennt af ríkinu á sama grundvelli og annað framhaldsskólanám.

Við förum yfir leiðirnar sem við sjáum. Í ályktuninni segir svo:

Framhaldsskólum eða fjarkennslustöðvum frá þeim sem sinni öllum byggðakjörnum verði komið á fót. Sérstök áhersla verði lögð á að auka framboð í starfs- og listnámi á landsbyggðinni sem höfðar jafnt til beggja kynja og verði raunhæfur valkostur fyrir alla. Auka skal samstarf framhaldsskóla og grunnskóla. Það á sérstaklega við á landsbyggðinni þar sem fámenni kallar á aukna hagkvæmni í nýtingu mannauðs, húsnæðis og ferða. Auka ber náms- og starfsfræðslu ... (Gripið fram í: Þetta er allt í frumvarpinu.) Ég geri mér grein fyrir því, ég sagði það í upphafi máls míns að það er margt ágætt í frumvörpunum.

Það er margt ágætt í frumvarpinu og margar breytingartillögur eru ágætar en samt sem áður finnum við að það vantar inn í frumvarpið að taka tillit til víðtækra sjónarmiða skólafólksins á framhaldsskólastiginu, skólanna og þeirra manna sem gerþekkja þessi mál. Það er í rauninni það sem við framsóknarmenn biðjum um hér að þetta mál fái sumarið til endurskoðunar. Hér komi hinn vígreifi formaður, Sigurður Kári Kristjánsson, sólbrúnn undan sól í haust og hafi þá náð samstöðu með öllu þessu fólki sem nú er ósátt við málið. Það er í rauninni það sem við erum að fara fram á. Ég skora bæði á hv. formann sem er hinn vaskasti maður og á mikla framtíð, ef ég spái rétt fyrir þessa öld í þinginu. Eins trúi ég því að samfylkingarmenn vilji fara yfir umræðu sína í dag og meta hana upp á nýtt og ég vona að þeir vilji gjarnan kynna sér þær athugasemdir sem hafa verið að berast inn á tölvur þingmanna og athugasemdir koma sem mér finnst að ekki sé hægt að ganga fram hjá.

Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar: Mun hann taka þetta mál inn í nefndina á milli 2. og 3. umr.? (Gripið fram í.) Telur hann þess þörf út af þessum umsögnum eða telur hann að umsagnirnar séu ekki þess virði að líta þurfi á þær eins og mér finnst að samfylkingarfólkið hafi talað í dag? Ég vil fá skýr svör hvað þetta varðar í kvöld áður en umræðunni lýkur. Ég sé að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er tilbúinn til að svara þessari spurningu minni.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu fyrir mig að lengja þessa umræðu. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á að hér yrði gefinn tvöfaldur tími til að fara yfir þetta mál, ekki síst vegna allra þeirra athugasemda og þeirrar miklu óánægju sem kemur hvarvetna að af landsbyggðinni, hér af höfuðborgarsvæðinu, frá okkar stóru og sterku skólum sem starfað hafa af mikilleik í gegnum tíðina og skila mörgu frábæru fólki út í lífið. Ég vona að menn vilji hlusta á rök þess þó að þeir nenni kannski ekki að hlusta á vinstri græna eða Framsóknarflokkinn. En samt sem áður ber mönnum að virða stjórnarandstæðinga því að þeir hafa sitt hlutverk hér. Menn verða að hafa nöldrið sitt til að átta sig á að það er ýmislegt sem þeim getur yfirsést. Ég sé það á þeim umsögnum sem mér hafa borist frá fagfélögum og skólum að hér virða menn mál lítils ef þeir taka þau ekki til endurskoðunar á milli 2. og 3. umr. og fara aftur yfir athugasemdirnar nú þegar fólkið í landinu sér hverjar breytingartillögurnar eru, hvað vantar inn í frumvarpið til að það sé ásættanlegt.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.