135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:37]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla þá að leyfa mér það sem ég vona að ég eigi svo létt með, að biðja hv. formann nefndarinnar, Sigurð Kára Kristjánsson, um að verða við því lítilræði að fara yfir málin milli 2. og 3. umr. Ég treysti honum vel til þess. Ég geri mér grein fyrir því, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að margt er mjög gott í þessum frumvörpum og margt er til bóta.

Ég tel samt sem áður að menn eigi ekki að gera lítið úr þeirri óánægju sem brotist hefur út og ég fagna því að hv. formaður nefndarinnar gerði það ekki. Ég trúi því að hann vilji virða framhaldsskólastigið með sama hætti og honum tókst að gera með leikskóla- og grunnskólastigið, náði þar slíkri samstöðu að athygli hefur vakið. Ég hygg að á mínum langa stjórnmálaferli hafi ég sjaldan hlustað á jafnefnisríkar og ágætar ræður og þær sem voru fluttar um það mál í gær.