135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.

[10:05]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram er rétt að geta þess að forseti Alþingis, sá sem hér stendur, var erlendis síðari hluta síðustu viku við skyldustörf. En út af þeim orðum sem hér féllu vill forseti geta þess að hann hefur kynnt sér þær umræður sem fram fóru í síðustu viku um fundarstjórn forseta og lutu að þessu atriði, frávikum frá ákvæðum 4. mgr. 10. gr. þingskapa um reglulega þingfundartíma. Sumt sem þar var sagt vakti undrun mína satt að segja.

En málið er einfalt. Í greininni segir að reglulegir þingfundir standi ekki lengur en til kl. 8 síðdegis en þó getur forseti ákveðið að þingfundir standi til kl. 12 á miðnætti á þriðjudögum. Frá þessum tímamörkum má þó víkja, annaðhvort ef samkomulag er um það milli þingflokka eða ef þingið samþykkir það. Framkvæmdin hefur verið sú athugasemdalaust þar til í síðustu viku að forseti hefur borið upp tillögu um að vikið sé frá þessum ákvæðum og spurt hvort óskað sé atkvæðagreiðslu um tillöguna. Ýmist hefur það verið gert og atkvæðagreiðslan þá farið fram en ef engin ósk hefur borist um það hefur forseti þá litið svo á að tillaga hans væri samþykkt án atkvæðagreiðslu eins og oft er samanber 1. mgr. 66. gr. þingskapa. Forseti hefur jafnan orðað tillögu sína svo að þingfundir gætu staðið þangað til umræðu um dagskrármál væri lokið en lengur getur þingfundur ekki staðið; ég get glatt menn með því. Það þarf hins vegar ekki að þýða að öllum dagskrármálum ljúki, aðeins að forseti er ekki bundinn af áðurgreindum ákvæðum þingskapa um fundartíma.

En vegna þeirra óska sem hér hafa komið fram er sjálfsagt að verða við því að greiða atkvæði síðar í dag um þetta. En það má ekki líða langur tími að það liggi fyrir vegna þess að hv. þingmenn verða að vita nokkuð um það hvernig þingfundi verður háttað í dag.