135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.

[10:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið þessum orðum hæstv. forseta ósvarað. Hér var reyndar talað eins og véfréttin í Delfí og það væri fróðlegt og eftirsóknarvert að hæstv. forseti léti okkur vita hvað það var sem honum var einkum undrunarefni í ummælum á Alþingi. Okkur í stjórnarandstöðunni var það hins vegar undrunarefni hvernig stjórn þingsins var hagað. Hér hefur verið vísað í þingskapalög af hálfu hæstv. forseta. Ég leyfi mér að vísa líka í nokkuð sem heitir heilbrigð skynsemi, að við skiljum nokkurn veginn hvað það er sem við erum að gera. Hér liggur dagskrá þingsins fyrir í 16 liðum og hæstv. forseti var að leggja það til við þingheim að hann samþykkti að við lykjum þessari dagskrá. Þannig skilur fólk þetta almennt sem hlustar á mælt mál og beitir skynsemi sinni.

En ég fagna því að hæstv. forseti ætli (Forseti hringir.) að fresta atkvæðagreiðslunni þar til fundur með þingflokksformönnum hefur farið fram.