135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:36]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund þá aðila sem nefndir eru í áliti meiri hlutans. Í því áliti eru einnig tilgreindir þeir aðilar sem sent hafa nefndinni umsagnir. Athugasemdir 1. minni hluta varða eignarhald á Hitaveitu Suðurnesja og framsal tímabundins afnotaréttar.

Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að helstu orkufyrirtæki landsins eru að fullu í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og falla þau þar af leiðandi undir framsalstakmörkun frumvarpsins á vatns- og jarðhitaréttindum að einu fyrirtæki undanskildu sem er Hitaveita Suðurnesja. Ástæður þessa má rekja til sölu ríkisins á hlut í fyrirtækinu fyrir um ári síðan og olli sá gerningur mikilli reiði meðal fólks á Suðurnesjum. Reiði fólksins var til komin af því að almenningur hefur byggt þetta glæsilega fyrirtæki upp og gert það að því sem það er í dag. Á nokkrum dögum tókst að safna undirskriftum um helmings Suðurnesjamanna sem ekki vildu einkavæða Hitaveitu Suðurnesja. 1. minni hluti leggur því til að í frumvarpið verði bætt bráðabirgðaákvæði sem á að tryggja að hlutur Geysis Green Energy í fyrirtækinu komist í hendur ríkis eða sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er ríki og sveitarfélögum heimilað að framselja öðrum tímabundinn afnotarétt til allt að 65 ára. 1. minni hluti bendir á að 65 ár eru langur tími og á þeim tíma geta aðstæður breyst mikið samfara breyttum atvinnutækifærum og hækkandi orkuverði. Að auki verður ekki annað ráðið miðað við þær umsagnir sem nefndinni hafa borist að ástæða sé til að óttast að handhafi afnotaréttar fari nær undantekningarlaust fram á að hafa réttinn í 65 ár. Þingflokkur Frjálslynda flokksins telur 35 ára hámarksafnotatíma vera hæfilegan og leggur 1. minni hluti því til samsvarandi breytingu. 1. minni hluti telur að við nánari útfærslu væri rétt að kveða á um að aðilum væri heimilt að semja um áframhaldandi afnot þegar 10 ár væru eftir af samningstíma.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr. Í stað tölunnar „65“ í 3. efnismgr. komi: 35.

2. Við 8. gr. Í stað tölunnar „65“ í 3. efnismgr. komi: 35.

3. Við 13. gr. Í stað tölunnar „65“ í 3. efnismgr. komi: 35.

4. Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:

Fjármálaráðherra skal að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög beita sér fyrir því að ríki og/eða sveitarfélög eignist hlut Geysis Green Energy í Hitaveitu Suðurnesja fyrir 1. júlí 2009.