135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:40]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hvert stefna skal í eignarhaldi og nýtingu auðlinda okkar í vatnsafli og jarðvarma. Spurningin er hvort við eigum að stefna í átt til sjálfbærrar þróunar með hagsmuni almennings að leiðarljósi eða að hámarksnýtingu með skammtímagróðann að markmiði.

Orku- og auðlindamálin hafa svo sannarlega verið fyrirferðarmikil hjá okkur í pólitískri umræðu undangenginna ára. Aðdragandinn að því að raforkutilskipun Evrópusambandsins var tekin í lög var til að mynda mjög umdeildur. Við vinstri græn töldum að Íslendingar ættu að sækja um undanþágu frá innleiðingunni vegna smæðar markaðarins og einangrunar, samkeppni ætti ekki heima við íslenskar aðstæður. Nú að liðnum þessum árum er ástæða til þess að spyrja hvernig til hefur tekist.

Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni fyrir einu eða tveimur þingum og í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra um raforkuskýrslu í vetur kom fram að 0,35% af raforkukaupendum höfðu skipt um raforkusala í árslok 2006, sem sagt það hefur algjörlega misheppnast að innleiða samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum. Hins vegar telja menn að kerfisbreytingin ein hafi kostað 5–6 milljarða kr.

Ég tel að vonbrigði markaðsaflanna út af þessari misheppnuðu samkeppni sé önnur ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er flutt. Hin ástæðan er einkavæðingin á 15,2% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja í apríl 2007. Henni fylgdi mikil ásókn einkafjármagns og fjárfesta í orkulindir þjóðarinnar og fyrirtækin sem hún hefur byggt upp á orkusviði í áratugi. Þessi ásókn náði hámarki í svokölluðu REI-máli sem tókst sem betur fer að stöðva sl. haust fyrir harðfylgi fulltrúa Vinstri grænna, Svandísar Svavarsdóttur, í stjórn Orkuveitunnar.

Við þá atburði var fólki brugðið. Kallað var eftir því að slegið yrði skjaldborg um auðlindirnar og fyrirtækin, að fjármagnið fengi ekki að leggja á einu bretti undir sig orkulindir þjóðarinnar og þessi öflugu fyrirtæki sem eru í eigu almennings í landinu. En það kom líka kall úr annarri átt. Það kom kall úr ranni vonsvikinna frjálshyggjumanna sem kröfðust nýrra aðgerða til að koma á samkeppni á þessum örmarkaði hvað sem það kostar. Við þessu kalli frjálshyggjunnar brást hæstv. iðnaðarráðherra um leið og hann boðaði að hann hygðist tryggja eignarhald þjóðarinnar á orkuauðlindunum.

Hér hafa því, herra forseti, tekist á tvö andstæð öfl við mótun þessa frumvarps, tvær ólíkar pólitískar stefnur, annars vegar um félagslega eign á auðlindum og fyrirtækjum á orkusviði og hins vegar sú sem fylgir blint kenningum Adams Smiths um að markaðurinn eigi að annast almannaþjónustuna eins og reyndar öll önnur verkefni í samfélagi manna. Niðurstaðan, frumvarpið, er í takt við þetta. Hún er tvíbent, hún vísar til tveggja átta og er það í samræmi við annað það sem frá ríkisstjórninni kemur, sem ég held að réttilega hafi verið kölluð tvíhöfði í umræðum einhvers staðar í fjölmiðlum í gær.

Ég kaus, herra forseti, að draga aðeins fram þennan aðdraganda vegna þess að hann varpar í mínum huga ljósi á þá staðreynd að enda þótt yfirlýst markmið frumvarpsins sé að tryggja almannahagsmuni er þar ekki allt sem sýnist. Frumvarpið opnar gátt fyrir einkavæðingu raforkugeirans og getur að mínu viti kollvarpað eignarhaldi og rekstri á orkufyrirtækjum landsmanna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og miklum kostnaði fyrir almenning. Ég vek athygli á því að þó að orkuauðlindir, sem nú eru í opinberri eigu, verði áfram í opinberri eigu verði þetta frumvarp samþykkt, verður heimilt að selja öll fyrirtæki sem nú eru í sölu og vinnslu og fyrirtæki sem verða búin til til þess að annast það út úr stærstu orkufyrirtækjunum, sem sagt að selja 100% af því, það verður heimilað að selja 49% af öllum dreifiveitum og hitaveitum í landinu og það verður heimilað að selja 49% í Landsneti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlega í nefndarálit mitt en vísa til þess þar sem við á. Ég kaus að láta fylgja því þrjú álit sem nefndinni bárust, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá Alþýðusambandi Íslands og frá BRSB. Þetta eru í mínum huga fulltrúar almannavaldsins í landinu sem gæta breiðra hagsmuna almennings gagnvart sérhagsmunum og það er athyglisvert hvað segir í þessum álitum um stærstu málin sem eru til umfjöllunar í þessu frumvarpi.

Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um þau álitamál sem snúa að stjórnarskrá lýðveldisins og vísað til álitsgerðar Eiríks Tómassonar þar um. Ég vík að því í nefndaráliti mínu að stjórnarskráin hafi ekki fengið að njóta vafans við umfjöllun nefndarinnar. Nokkrir umsagnaraðilar fjölluðu um það hvort álitið færi í bága við stjórnarskrána, og ég vísa til álits Landsvirkjunar og Verslunarráðsins, en veigamestu athugasemdirnar komu þó frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í umsögn sambandsins segir m.a., með leyfi forseta:

„Sambandið leggur áherslu á að ekki verði gengið lengra en brýn nauðsyn ber til í að skerða frelsi sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu til að ráðstafa eignarréttindum á þann hátt sem þau telja hagfelldast fyrir viðkomandi fyrirtæki og íbúa viðkomandi sveitarfélags. Um þetta vísast m.a. til 72. og 78. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga.“

Síðan segir:

„Í frumvarpinu felst mjög mikið inngrip í starfsemi orku- og veitufyrirtækja. Mjög erfitt er að sjá annað en að bótaskylda kunni að stofnast við þær skerðingar á eignarrétti sem boðaðar eru í frumvarpinu og leggst sambandið alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt nema gengið hafi verið úr skugga um að frumvarpið sé í samræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.“

Vegna þessara athugasemda, herra forseti, óskaði ég eftir því að nefndin réði sérfræðing til að fara betur yfir tiltekna þætti frumvarpsins en sumum þeirra voru ekki gerð skil í annars ágætri álitsgerð Eiríks Tómassonar lagaprófessors. Álitsgerðina þarf þó að skoða í því ljósi að hún var lögð fram af hálfu iðnaðarráðherra og til stuðnings frumvarpinu. Með þessari ósk er ég ekki að varpa rýrð á þá tvo ágætu lögmenn sem komu sem gestir á fund nefndarinnar og skeggræddu þar þessi atriði, þá Sigurð Líndal og Karl Axelsson hæstaréttarlögmenn. Heimsóknir gesta á fund nefndarinnar er hins vegar ekki hægt að leggja að jöfnu við unna álitsgerð. Því miður var ekki orðið við þessari ósk og ég undrast það og ég átel það, herra forseti, að þegar fram koma áleitnar spurningar sem varða stjórnarskrá lýðveldisins um það hvort frumvörp frá framkvæmdarvaldinu standist hana, eigi þingnefnd ekki annan kost en þann að styðjast við eitt stakt lögfræðiálit sem framkvæmdarvaldið sjálft hefur keypt og látið vinna.

Eftir þessa reynslu mína í nefndinni verð ég að segja að mér þótti frábært að heyra að í félags- og trygginganefnd væru önnur vinnubrögð uppi. Þar hefðu menn fengið lögmann til að aðstoða nefndina við endurvinnslu á lagafrumvarpi sem þar var til athugunar. Ég hlýt því, herra forseti, að álykta sem svo að það hafi verið hrein meinbægni sem réði afstöðu hv. iðnaðarnefndar varðandi það að kaupa nýtt álit en ekki skortur á heimildum eða skortur á fjármagni eins og borið var við.

Ég vil að þessu búnu víkja að afstöðu okkar til frumvarpsins, breytingartillögum Vinstri grænna, og afstöðu okkar til breytingartillagna meiri hlutans og fulltrúa Frjálslynda flokksins. Í lok nefndarálits míns á bls. 8 er lýst stuðningi við það markmið frumvarpsins að treysta eignarhald ríkis og sveitarfélaga á orkuauðlindum sem þegar eru í almannaeign um leið og við teljum að unnt sé að ganga lengra. Jafnframt er lýst andstöðu við fyrirhugaða uppskiptingu fyrirtækja á orkusviði og andstöðu við sölu á hlutum úr Landsneti. Af þessu leiðir að við leggjum fram nokkrar breytingartillögur á þskj. 1099 og þar sem hér er um bandorm að ræða er þetta allflókið breytingartillöguplagg sem ég ætla ekki að reyna að lesa að þessu sinni. Breytingartillögurnar eru fólgnar í þessu, herra forseti:

Í fyrsta lagi að frumvarpið taki ekki aðeins til auðlinda í hreinni opinberri eigu heldur líka til eina fyrirtækisins sem er í blandaðri eign sveitarfélaga og einkaaðila, þ.e. til Hitaveitu Suðurnesja. Það er hægt með því að fella niður orðið „alfarið“ þar sem við á.

Í öðru lagi að fallið verði frá öllum kröfum um fyrirtækjalegan aðskilnað raforkufyrirtækja og hitaveitna.

Í þriðja lagi að Landsnet verði áfram í opinberri eigu.

Í fjórða lagi eru smærri tillögur, veigaminni tillögu vil ég segja, m.a. um að bráðabirgðaákvæði XII verði fellt niður, um endurskoðun og hlutafélagavæðingu orkufyrirtækjanna sem nú eru sérlög um, og enn fremur að í 1. gr. verði gætt hagsmuna bæði eiganda auðlindarinnar og leigjanda. Sú tillaga gengur reyndar lengra en tillaga meiri hlutans við þá grein.

Ég vil víkja, herra forseti, að afstöðu okkar til breytingartillagna meiri hlutans. Við munum greiða atkvæði gegn tillögunni um að breyta ákvæði um eignarhald opinberra aðila í sérstökum sérleyfisfyrirtækjum þannig að það skuli vera 51% í stað 2/3 hluta, að það skuli vera einfaldur meiri hluti í stað aukins meiri hluta. Ef svo ólíklega vill til að tillaga okkar um að falla frá fyrirtækjalegum aðskilnaði verður felld, en ég vona auðvitað, herra forseti, að hún verði samþykkt vegna þess að þessi krafa er gríðarlega íþyngjandi fyrir fyrirtækin og kostnaðurinn mun lenda á almenningi í landinu. Þar er líka mun lengra gengið en kröfur Evrópusambandsins standa til og ég vísa til álitsgerða Alþýðusambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað þetta varðar.

Í öðru lagi hvað varðar breytingu meiri hlutans um að undanskilja veitur frá uppskiptingu ef á dreifiveitusvæði þeirra búa 10 þúsund manns eða færri í stað þess að miða við 2 milljarða kr. tekjumark, þá verð ég að segja að sú tillaga verður auðvitað óþörf þegar búið er að samþykkja tillögu okkar um að hætta við þessa vitleysu að skipta upp þessum fyrirtækjum með ærnum kostnaði, en eins og fram kemur í nefndaráliti mínu tel ég mjög mikilvægt, ef farið verður út á þá óskynsamlegu braut, að veikustu og minnstu fyrirtækjunum verði þá a.m.k. hlíft við þeim kostnaði.

Í þriðja lagi — ég er enn að fjalla um breytingartillögur meiri hlutans — er orðalagsbreyting meiri hlutans vegna endurnýjunar afnotasamnings einhliða í þágu leigjandans og gengur því ekki nógu langt að okkar mati.

Hvað varðar tillögu fulltrúa frjálslyndra um að ríkið leysi eignarhluta einkaaðila í Hitaveitu Suðurnesja til sín þá er það tillaga svipuð þeirri sem við vinstri græn höfum flutt áður annaðhvort við fjárlagagerð eða fjáraukalög fyrr í vetur og við munum styðja hana. Fulltrúi frjálslyndra leggur einnig til að leigutími auðlindanna sem samkvæmt frumvarpinu verður að hámarki 65 ár verði styttur niður í 35 ár og finnst mér það líka skynsamleg tillaga, ekki síst eftir að búið er að setja inn í greinina ákvæði um gagnkvæma endurnýjun samnings.

Ég vek athygli þingheims á athyglisverðri umsögn frá Hollvinum Hitaveitu Suðurnesja en það eru aðilar sem söfnuðu undirskriftum um að verja hitaveituna gegn ásókn fjárfesta í fyrra og hv. þm. Grétar Mar Jónsson rakti hér áðan. Meginniðurstaðan í áliti Hollvina Hitaveitu Suðurnesja er einmitt að kröfur frumvarpsins um fyrirtækjalegan aðskilnað muni leiða til þess að Hitaveita Suðurnesja kalli eftir gjaldskrárhækkun og þar af leiðandi muni frumvarpið valda kostnaðarauka fyrir íbúa á Suðurnesjum. Síðan segir í áliti Hollvina Hitaveitu Suðurnesja, með leyfi forseta:

„Rétt væri að ríkið keypti aftur sinn hlut af einkaaðilum þannig að auðlindirnar færu beint í 100% eigu opinberra aðila eins og aðrar orkuauðlindir.“

Þetta er, herra forseti, einmitt markmiðið með tillögum okkar vinstri grænna um Hitaveitu Suðurnesja og ætla ég nú að víkja sérstaklega að því.

Eins og fram hefur komið styðjum við markmið frumvarpsins um að auðlindir í almannaeigu verði í 100% eigu þeirra áfram en við teljum mögulegt að láta þetta ákvæði líka ná til Hitaveitu Suðurnesja. Þegar lögfræðiálit Eiríks Tómassonar vefengdi rétt löggjafans til þess að láta frumvarpið ná til Hitaveitu Suðurnesja hófst undanhald ráðherrans frá boðuðum markmiðum og frumvarpið eins og hér hefur komið fram, gerir einmitt ráð fyrir að Hitaveita Suðurnesja, sem að vissu marki er upplýst að hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að frumvarpið var samið, sé undanþegin banni við varanlegu framsali auðlindanna.

Það hefur hins vegar verið bent á það, herra forseti, að samhliða því að setja í lög almenn fyrirmæli hefði mátt semja við Hitaveitu Suðurnesja um að fyrirtækið félli undir lögin af því að þetta er eina fyrirtækið sem þannig háttar um að það er í sameign sveitarfélaga og einkaaðila. Stjórnarformaður og varaformaður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja lýstu því reyndar yfir í bréfi til iðnaðarnefndar og komu á fund nefndarinnar að starfsemi fyrirtækisins yrði færð til samræmis við ákvæði laganna, þ.e. að auðlindirnar verði alfarið í eigu sveitarfélaga en einkaaðilar muni sinna og eiga aðra rekstrarþætti. Þar með gafst færi á að breyta þessu frumvarpi og láta takmarkanir á framsali auðlinda í vatnsafli og jarðvarma vera altækar eins og mér virtist ráðherra upphaflega gera ráð fyrir. Ég vil leyfa mér að vísa í álit meiri hluta iðnaðarnefndar þessari tillögu minni til stuðnings en þar segir, með leyfi forseta, þegar rakið er hvernig fulltrúar stærstu eigenda Hitaveitu Suðurnesja komu á fund nefndarinnar 21. apríl sl. og skiluðu viðbótarumsögn þar sem lýst var vilja til að laga starfsemi þess að ákvæðum frumvarpsins:

„Ef það gengur eftir er ljóst að frumvarpið mun ná til helstu orkufyrirtækja landsins.“

Ég tel, herra forseti, rétt að taka af allan vafa um það í lagatextanum sjálfum, ekki bara að bíða og heldur ganga frá samningum við Hitaveitu Suðurnesja um þetta og láta lagatextann taka af allan vafa. Til þess er breytingartillaga okkar þar sem niður falli orðið „alfarið“ flutt.

Ég vil víkja sérstaklega að Sambandi íslenskra sveitarfélaga og aðkomu þess að þessu máli. Í störfum nefndarinnar kom nefnilega fram að ekkert samráð var haft við vinnslu þessa máls við Samband íslenskra sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Það er tóm vitleysa, segir hæstv. iðnaðarráðherra, en á fundum nefndarinnar kom ítrekað fram að sambandinu var kynnt fullbúið frumvarp í janúar eða febrúar á þessu ári, rétt áður en það var lagt fyrir Alþingi. Þetta tel ég mjög ámælisvert vegna þess, herra forseti, að sveitarfélögin eiga nær öll orkufyrirtæki og hitaveitur í landinu ef undan eru skilin Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik sem eru alfarið í eigu ríkisins. Ég vil leyfa mér að nefna þessi öflugu fyrirtæki sem sveitarfélögin í landinu eiga. (Gripið fram í.)Það er Orkuveita Reykjavíkur, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur, Rafveita Reyðarfjarðar, 68% hlutur í Hitaveitu Suðurnesja og allar aðrar hitaveitur í landinu sem eru yfir 20 talsins.

Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin hagrætt verulega í rekstri sínum og náð miklum fjárhagslegum ávinningi, m.a. með því að reka alla veitustarfsemi sína í einu fyrirtæki. Nú, herra forseti, skal sveitarfélögum hins vegar gert að skipta a.m.k. stærstu fyrirtækjunum sínum upp aftur og það er ljóst að mikið fjárhagslegt óhagræði getur af þessu leitt og ekki síst fyrir smærri sveitarfélögin eins og hér er rakið. Meiri hlutinn er að reyna að setja undir þann leka og það verður að segjast að það er betra en ekki. En í áliti og breytingartillögum meiri hlutans er í litlu sem engu komið til móts við mótmæli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og ég ítreka að það var heldur ekki hlustað á varnaðarorð sambandsins um mögulega skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga samkvæmt stjórnarskránni.

Í áliti meiri hlutans er þvert á móti, herra forseti, gert lítið úr áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga og þar segir, með leyfi forseta: „… Samband íslenskra sveitarfélaga tók ekki efnislega afstöðu til frumvarpsins …“ Og þar er vísað til álits sem fylgir með nefndaráliti mínu.

Ég tel rétt, herra forseti, að upplýsa þá sem ekki vita — sem betur fer eru mjög margir í þingheimi sem vita nákvæmlega hvernig þessi mál eru venjulega unnin hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga — að ekki er venja að leggja álit fyrir stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en þau eru send til Alþingis. Venjan er sú að starfsmenn sambandsins taka saman álitið og senda það. Þetta mál sem hér um ræðir mun vera annað tveggja sem í vetur hefur verið fjallað um sérstaklega í stjórn sambandsins og það ræðst væntanlega af því hversu hápólitískt og stórt mál þetta er. Venjulega eru álitin unnin af starfsmönnum sambandsins og kynnt stjórn eftir að þau eru send út.

Hvað varðar það álit sem hér liggur fyrir og er að finna í nefndaráliti mínu og meiri hlutinn telur ekki vera álit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þá vil ég taka það fram og hef til þess leyfi að álitið var tekið saman eftir umræður á stjórnarfundi og kynnt öllum stjórnarmönnum áður en það var sent hv. iðnaðarnefnd.

Herra forseti. Það er dapurlegt en táknrænt því miður að meiri hlutinn skuli ekki treysta sér til að styðjast við og hlusta á, hvað þá að fara eftir áliti sveitarfélaganna í landinu. Þess í stað er vísað mjög til álita forstjóranna í orkufyrirtækjunum og við þekkjum það af REI-málinu sérstaklega í Reykjavík að það getur verið himinn og haf á milli álits kjörinna borgarfulltrúa í Reykjavík annars vegar og svo hinna sem eru forstjórar í viðkomandi fyrirtækjum, hvort sem þau heita Orkuveita Reykjavíkur eða REI, eða þá samtaka slíkra fyrirtækja eins og Samorku. Spurningin er: Á hvern vill Alþingi hlusta? Á fulltrúa eigendanna, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga, eða fulltrúa þeirra sem eru ráðnir til að stjórna tilteknum fyrirtækjum fyrir sveitarfélögin og hafa um það samtök sín í milli, Samorku sem ég nefndi? Það er alveg dagljóst, herra forseti, að hagsmunir einstakra fyrirtækja eins og Orkuveitu Reykjavíkur þurfa alls ekki að fara saman við hagsmuni sveitarfélagsins eða sveitarfélaganna sem hana eiga sem slíka. Hagsmunir sveitarfélagsins eru í rauninni miklum mun víðtækari og þeir byggja á allt öðrum og félagslegum grunni. Hér er spurningin um það hvort eyrun eru lögð við markaðnum og debet og kredit á honum eða hvort hagsmunir almennings í landinu, íbúa og raunverulegra eigenda fyrirtækjanna eru lagðir til grundvallar og viðhaft breitt hagsmunamat.

Herra forseti. Nú fær meiri hlutinn annað tækifæri því stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga ályktaði á fundi sínum sl. föstudag og sendi hv. iðnaðarnefnd bréf, dagsett 23. maí, þar sem kemur fram að stjórnin leggi til þá breytingu að 4. gr. frumvarpsins sem fjallar um breytingu á eignarhaldi á Landsneti hf. falli brott úr frumvarpinu. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Landsnetið er vegakerfi orkunnar. Stjórnin telur afar brýnt að fyrirtækið verði áfram alfarið í opinberri eigu.“

Það er athyglisvert, herra forseti, að þennan stjórnarfund Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem þetta var samþykkt einróma sátu fimm sjálfstæðismenn, þrír fulltrúar Samfylkingarinnar, tveir fulltrúar Vinstri grænna og (Gripið fram í: Samhljóða.) (Gripið fram í.) einn fulltrúi framsóknarmanna. Samhljóða, já, herra forseti? Ég sé nú ekki muninn á því, hv. frammíkallendur. En í þessum hópi eru sjálfstæðismennirnir Halldór Halldórsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gunnar Einarsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson, samfylkingarmennirnir Lúðvík Geirsson, Dagur B. Eggertsson og Smári Geirsson. Nú verður athyglisvert að vita hvort meiri hlutinn í iðnaðarnefnd muni hlusta á þessa flokksfélaga sína sem þarna eru, átta manns í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með ákalli um það að verja a.m.k. Landsnet gegn þeirri einkavæðingu sem hér stefnir í.

Þá er ég, herra forseti, komin að Landsneti þar sem fjallað er um í 4. gr. frumvarpsins. Ekki hafa önnur rök heyrst fyrir þeirri tillögu að selja fyrst einn þriðja og nú 49% úr Landsneti önnur en þau að eðlilegt sé að hið sama gildi um dreifiveitur og flutningsfyrirtæki. Þetta er rangt, herra forseti, þetta er alrangt.(Gripið fram í.) Í raforkutilskipun Evrópusambandsins er einmitt gerður mjög skýr greinarmunur á skyldum flutningsfyrirtækisins annars vegar og dreifiveitum hins vegar. Þess vegna er m.a. veitt undanþága í raforkutilskipuninni um fyrirtækjalegan aðskilnað dreifiveitna ef tengdir notendur eru 100 þúsund eða færri. Það er enga slíka undanþágu unnt að fá varðandi flutningsfyrirtæki. Ég tel að það sé samfélaginu mjög mikilvægt að flutningsmannvirkin og kerfisstjórnin sé í hreinni almannaeigu, enda er um eins konar grunnnet eða vegakerfi raforkuflutninganna að ræða og það er mikið öryggismál hvernig staðið verður að viðhaldi og frekari uppbyggingu þess. Ég bendi á að flutningskerfin á Norðurlöndum annars staðar en í Finnlandi eru öll alfarið í eigu ríkisins, ýmist sem opinbert hlutafélag í Danmörku eða ríkisfyrirtæki eins og í Noregi og Svíþjóð. Við teljum sérstaklega varasamt, herra forseti, að opna á þátttöku einkaaðila í þessum rekstri vegna þess að tengdir hafa verið slíkum aðgerðum bæði kostnaðarauki og alvarlegir atburðir í öðrum löndum, svo sem eins og lestarslysin í Bretlandi og rafmagnsleysið í Kaliforníu.

Ég vísa einnig í greinargerðinni til bráðabirgðaákvæðis XII í raforkulögunum þar sem kveðið er á um endurskoðun á þessum lögum. Ég tel að óeðlilegt sé að ljúka með þessu frumvarpi endurskoðun á eignarhaldsákvæði laganna rétt áður en nefnd sem um endurskoðunina fjallar kemur saman. Ég tel mikilvægt að 4. gr. falli brott og Landsnet verði áfram í eigu opinberra aðila. Það er reyndar skoðun mín að ríkið eigi að leysa hlut raforkuframleiðendanna í fyrirtækinu til sín til að koma í veg fyrir óeðlileg hagsmunatengsl. Ég mun, herra forseti, óska eftir því í ljósi ályktunar sambandsins að málinu verði vísað aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og á fund nefndarinnar komi þá fulltrúar frá Landsneti og eigendum fyrirtækisins.

Herra forseti. Þegar opnað er á allt að 49% hlut einkaaðila á fyrirtækjum sem hingað til hafa verið í samfélagslegri eigu eru stigin afdrifarík skref í átt til einkavæðingar. Ég hef rakið að ekki eru haldbær rök málinu til stuðnings og engin knýjandi þörf er að baki þessum breytingum. Við höfum gengið mun lengra en Evrópukröfurnar gera. Tekist er á um grundvallaratriði, um sérhagsmuni fjármagnseigenda annars vegar og almannahagsmuni hins vegar. Framleiðsla og dreifing raforku, hitaveitu og neysluvatns til almennings er hluti af almannaþjónustunni í nútímasamfélagi og um hana viljum við vinstri græn standa vörð. Ég tel fráleitt að þvinga framleiðslu og nýtingu þessara gæða inn í samkeppnisumhverfi sem er sérsniðið fyrir meginland Evrópu með samtengdum mörkuðum sem þjóna milljónum manna. Vatn og rafmagn lýtur að mestu leyti náttúrufræðilegri einokun þannig að hugmyndafræði frjálshyggjunnar um samkeppni, framboð og eftirspurn á ekki við í þessum efnum.

Raforkufyrirtækin og ekki síður hitaveiturnar okkar mala samfélaginu gull. Við búum við einna ódýrustu raforkuna í Evrópu, gerðum það í það minnsta þegar raforkutilskipunin var tekin upp en þá voru einungis Grikkir með lægra raforkuverð til almennings heldur en við í gervallri Evrópu. Það kann að hafa breyst eftir 5–6 milljarða reikninginn sem þjóðinni var sendur vegna kerfisbreytingarinnar 2003. Hitaveiturnar okkar — viðbragðið við síðustu olíukreppu, þetta metnaðarfulla átak sem sveitarfélögin í landinu stóðu fyrir og lenti vissulega á íbúum þeirra þar sem menn urðu að fresta framkvæmdum til að byggja upp hitaveiturnar, m.a. framkvæmdum við byggingu íþróttamannvirkja og skóla — spara þjóðarbúinu nú milljarða í innfluttu eldsneyti og til þess er vísað í greinargerð minni.

Herra forseti. Þetta eru mjög mikilvæg gæði sem um er að ræða. Ég tel til hreinnar óþurftar að hefja með frumvarpinu einkavæðingu á þeim gæðum eins og hér er stefnt að með partasölu, herra forseti. Ég átta mig á því, og ég vona að fleiri geri það, að ríkisstjórnin þorði ekki og þorir ekki að koma fram með frumvarp um heildareinkavæðingu á þessum fyrirtækjum heldur er stefnt að því að skipta þeim í tvennt, opna fyrir sölu á 100% hlut í öllum sölu- og vinnslufyrirtækjum í stærstu fyrirtækjunum, þetta eru fyrirtæki eins og Fallorka og Orkusalan annars vegar og svo hins vegar 49% hlut, selja hann í dreifiveitunum sem eru í sérleyfissamkeppni, að ekki sé talað um þá ætlun að selja Landsnet. Þess vegna, herra forseti, tel ég að þó að markmið frumvarpsins séu góð og við styðjum að hafa auðlindir áfram í opinberri eigu þá verður að breyta frumvarpinu.