135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirferð. Ég tel álitið sem hún lagði fram vandað og frá sjónarhóli hennar ákaflega gott. Ég er ósammála mörgum hlutum þar þó. En ég vil líka þakka henni fyrir þann stuðning sem kemur fram í máli hennar sem talsmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við eitt af meginatriðum frumvarpsins.

Hv. þingmaður talar um að stjórnarskráin hafi ekki verið látin njóta vafans. Eigi að síður kvartar hún undan því eftir að fyrir liggur að þrír lagaspekingar taka undir að ekki hefði verið hægt að láta þessi lög ná til Hitaveitu Suðurnesja nema brjóta stjórnarskrána. Hún kvartar undan því. Með öðrum orðum, þegar hentar henni að láta stjórnarskrána ekki njóta vafans þá fer hún þá leið.

Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að gera samning við Hitaveitu Suðurnesja og segir í nefndaráliti að ráðherrann eða stjórnvöld hafi ekkert gert til þess. Nú ætla ég að rifja upp fyrir hv. þingmanni að það kom álit, eina álitið frá stóru orkufyrirtæki sem var neikvætt gagnvart frumvarpinu. Viku síðar kom annað álit. Af hverju heldur hv. þingmaður að það hafi komið? Hún má spyrja mig hvort ég hafi átt fundi með því fólki og ég skal svara henni ærlega um það.