135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eitt það allra merkilegasta sem gerst hefur í gangi þessa máls er sú staðreynd að fyrirtækið Hitaveita Suðurnesja sem áður féll utan við verksvið þessara laga hefur núna að eigin hvötum af sjálfsdáðum lýst því yfir við iðnaðarnefnd Alþingis að fyrirtækið hyggist laga sig að lögunum ef frumvarpið verður samþykkt. Þannig liggur það alveg fyrir, bæði munnlega og skriflega, að bæjarstjórinn og meiri hluti bæjarstjórnar í Reykjanesbyggð hyggst haga málum þannig að bærinn kaupi þær landareignir þar sem vatnsréttindin sem um ræðir eru í. Með öðrum orðum, búa svo um hnútana að auðlindirnar verði alfarið í eign sveitarfélagsins. Það er árangur af þessu frumvarpi.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég hafi átt viðræður við forustumenn í því sveitarfélagi. Svarið er já. Ég vek eftirtekt hennar á því eins og ég gerði áðan að neikvæð umsögn kom frá Hitaveitu Suðurnesja en ég átti viðræður við þessa ágætu forustumenn. Hv. þingmaður hefur fyrir framan sig niðurstöðuna af þeim samtölum.