135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:15]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur ekki á óvart að skoðanir séu skiptar um frumvarpið. Hér er náttúrlega um gríðarlega mikilvægt mál að ræða þar sem sjónarmiðin eru mörg. Ég býst við því að þetta sé eitt almikilvægasta mál sem við þingmenn munum takast á við á næstunni.

Þó eru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég átta mig ekki á. Ég skil ekki hvað hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er að fara þegar hún segir að samkeppnin sé ekki fyrir hendi og að hún leggist gegn því að við stígum skref í þá átt að auka hana. Mig langar til að fá svar hv. þingmanns við því hvort hún sé þar með á móti því — hún viðurkennir að samkeppnin sé ekki næg á almenna markaðnum, er hún þá mótfallin því að við grípum til aðgerða til að auka hana? Ef hún reynist vera á móti því hvað leggur hún þá til í því? Hvað vill hún gera til þess að auka þessa samkeppni á almenna markaðnum? — það hlýtur þá að vera einhver tilgangur í að gera það. Ég skildi hana að vissu leyti á þann veg að hún væri bara hreinlega á (Forseti hringir.) móti raforkulögunum sem liggja fyrir. Er það réttur skilningur?