135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:20]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að koma inn á einn þátt í ræðu hv. þingmanns og það eru fullyrðingar hennar um að með frumvarpinu sé verið að heimila sölu á 49% hlut í Landsneti. Það er einfaldlega rangt. Ekki er verið að opna fyrir neitt eignarhald á Landsneti í frumvarpinu. Samkvæmt gildandi lögum mega tiltekin fyrirtæki eiga hluti í Landsneti, þ.e. fyrirtæki sem áttu flutningsvirki þegar gildandi raforkulög komu til framkvæmda.

Eftir að Hitaveita Suðurnesja seldi sín virki til Landsnets eru eigendur þess, Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða, öll í 100% eigu ríkisins og Orkuveita Reykjavíkur er í 100% eigu sveitarfélaga. Því verður eignarhaldi Landsnets ekki breytt nema með lögum. Því til viðbótar gilda sérlög um öll framangreind fyrirtæki og því þarf alltaf atbeina Alþingis ef gera á einhverjar breytingar á eignarhaldi Landsnets. Það stendur hins vegar ekki til. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni hér á Alþingi (Forseti hringir.) að Landsnet eigi að vera í opinberri eigu.