135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir veit það jafn vel og ég að þegar Landsnet var stofnað voru, eins og fram kom í máli mínu áðan, eigendur þess þau fyrirtæki sem áttu flutningsvirki þegar gildandi raforkulög komu til framkvæmda. Það eru þau fyrirtæki sem ég nefndi hér áðan. Um öll þau fyrirtæki gilda síðan sérlög þar sem sérstaklega er fjallað um þetta.

Hv. þingmaður dregur fram þætti og málar upp sem eru einfaldlega rangir. Það stendur ekki til að opna, og þessi leið mun ekki gera það, neitt fyrir eignarhald á Landsneti.

Að auki má nefna að kveðið er á um það í bráðabirgðaákvæðum með raforkulögunum að endurskoða eigi raforkulögin fyrir árið 2010. Að mínu viti bendir ekkert til þess að þessu verði heldur breytt í þeirri endurskoðun miðað við orð hæstv. iðnaðarráðherra og skoðun sem hann hefur lýst á eignarhaldinu í Landsneti. Ég bið hv. þingmann að halda þessu til haga og fara rétt með. Ég fullyrði það hér með að þetta er (Forseti hringir.) á misskilningi byggt vegna þess að um (Forseti hringir.) þessi tilfelli gilda einnig sérlög.