135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:24]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. 4. gr. frumvarpsins sem við ræðum hljóðar svo:

„Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Flutningsfyrirtækið skal ávallt vera að lágmarki að 2/3 hlutum í eigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila.“

Hvað þýðir það? Það þýðir að einn þriðji hlutinn getur verið í eigu annarra en ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þeirra. Og hvað er það, herra forseti? Það eru einkaaðilar. Og það er ekki bara það heldur hefur meiri hluti iðnaðarnefndar nú lagt til að breyta þessum mörkum úr auknum meiri hluta í 51%. Og það er enginn misskilningur fólginn í þessu. Misskilningurinn sem fólginn hefur verið í þessu er, að ég held, að umsagnaraðilar hafi ekki áttað sig á því að með flutningsfyrirtækinu, eins og þarna segir, sé verið að fjalla um Landsnet.

Ég rakti það, gerði það í greinargerðinni, í ræðu minni áðan að ég tel algjörlega óeðlilegt að vera að taka inn í þessi lög núna ákvæði um eignarhald á Landsneti meðan verið er að byrja á því að endurskoða lögin í heild.