135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:27]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að nokkur skil eru stjórnsýslulega séð á milli sveitarstjórnar og stjórnar orkufyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Engu að síður er almenna reglan sú að fulltrúar í sveitarstjórnum skipa venjulega meiri hluta þeirra stjórna sem hér um ræðir og hafa í allan vetur lagt sitt inn í þá lagasetningu sem hér fyrirhuguð.

Ég vil líka nefna það sérstaklega varðandi það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni um afstöðu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, að hún hefði veitt álit sitt. „Álitið“ sem kom frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga var samantekt umræðna af stjórnarfundum þar sem þessi mál voru rædd og stjórnin kom sér ekki saman um eina umsögn. Einn stjórnarmaður, Svandís Svavarsdóttir, skilaði séráliti og það var birt. Ég vil líka nefna það sérstaklega hér að iðnaðarnefnd tók að mörgu leyti tillit til margra þeirra athugasemda sem fram komu í umsögnum orkufyrirtækja (Forseti hringir.) og m.a. í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.