135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:30]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér er mikilvægt mál á ferðinni og álitamálin mörg eins og fram kom í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að skoðanir séu skiptar um þetta mál og ég held að umræða um auðlindamál og orkusviðið hafi auðvitað verið í landinu um langa hríð en hefur þó komið nokkuð snöggt inn á Alþingi á undanförnum missirum, kannski ekki síst vegna þeirra framkvæmda sem hafa verið hér og af ýmsum öðrum ástæðum og síðustu mánuði kannski ekki síður vegna þess að við erum að gera okkur grein fyrir því sem við vissum náttúrlega fyrir að auðlindir okkar eru afar dýrmætar þegar á allt litið, bæði fyrir okkur Íslendinga og eins vegna þess ástands sem er í heiminum þar sem auðlindir munu væntanlega verða af skornari skammti og dýrari eftir því.

Þetta frumvarp sem, eins og ég hef sagt áður, lætur ekki mikið yfir sér, bandormurinn, en í því eru mikil tíðindi. Þetta mál hefur mikið verið rætt í iðnaðarnefnd og ég vil byrja á því að segja að mér hefur þótt samstarfið í nefndinni vera með ágætum. Þótt við séum að takast á um grundvallaratriði og kannski ekki síst þess vegna álít ég að umræðan í nefndinni hafi verið gagnleg fyrir alla nefndarmenn sem komu að málinu.

Iðnaðarnefnd hefur lagt til nokkrar breytingar á málinu sem ég ætla að ræða nokkuð síðar en áður en ég fer í þær vil ég fara nokkrum orðum um þetta mál, auðlindir okkar Íslendinga. Rótin að þessu frumvarpi er ekki síst sú að menn eru stöðugt að gera sér betur grein fyrir því hversu mikilvægar orkuauðlindir okkar eru. Þetta frumvarp, eins og ég sagði áðan, fjallar fyrst og fremst um raforkuframleiðsluna og auðlindir þessar í tengslum við þá nýtingu eins og við þekkjum hana í dag. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að auðlindirnar verði stöðugt verðmætari fyrir þjóðina, undir það tek ég heils hugar. Á tímum gríðarlega hás olíuverðs er ekki nokkur spurning að auðlindir sem okkar skipta afar miklu máli.

Hins vegar, herra forseti, og á þetta legg ég þunga áherslu, ef málum er svo háttað að stöðugt erfiðara er að virkja auðlindir okkar með skynsamlegum hætti eru þær auðvitað auðlindir í dvala, þær nýtast þá þjóðinni ekkert í þessum skilningi. Þekkingin tapast, tækifæri týnast. Við verðum að gera okkur grein fyrir þessu ekki síst í ljósi frétta um að Orkuveita Reykjavíkur hafi blásið Bitruvirkjun af borðinu — fullfljótt að mínu viti. Menn verða að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slík ákvörðun hefur og ef það er gert að ákveðnum sjónarmiðum uppfylltum er ekkert við því að segja í sjálfu sér, en að mínu viti er ekki viturlegt að hrapa að slíkum ákvörðunum.

Það má auðvitað spyrja sig að því hvort hægt sé að hugsa sér fjölbreyttari orkunýtingu einhvern tíma í framtíðinni og ég held að það sé skynsamlegt fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi að gera okkur grein fyrir því að tækniframfarir í þessari grein geta orðið hraðar og við verðum að fylgjast afar vel með því sem þar er að gerast og horfa eins langt fram í tímann og við getum og reyna að tryggja stöðu Íslands sem best. Það má segja að allt frá því að bygging stórvirkjana hófst hafi slíkar framkvæmdir verið nokkuð umdeildar í þjóðfélaginu og stundum afar umdeildar eins og við þekkjum t.d. um Búrfellsvirkjun og Kárahnjúkavirkjun. Vegna fyrri virkjunarinnar var fyrst og fremst um að ræða gagnrýni á að hleypa erlendum fjárfestingum inn í landið vegna álframleiðslu og í seinna tilvikinu var, eins og við munum mjög vel, mikil gagnrýni vegna þeirrar röskunar sem bygging virkjunarinnar hafði í för með sér. Auk þess var líka gagnrýnt að raforkan færi öll til orkufreks iðnaðar. Í því sambandi vil ég endilega minna á það sjónarmið að eina leiðin fyrir okkur Íslendinga til að flytja raforkuna úr landinu eins og er — af því að við hljótum öll að vona að við getum einhvern tíma byggt sæstreng — er í formi einhverrar vöru, hér hefur það verið í formi málms. Nú eru teikn á lofti um netþjónabú og aðra slíka starfsemi. Ég segi fyrir mig að ég er ánægð með að orkan okkar seljist á háu verði til starfsemi sem nýtir hana vel og við fáum sem mest fyrir hana. Reyndar vil ég samt geta þess að best er ef saman fer góð nýting og heppileg atvinnutækifæri fyrir landsmenn, uppbygging orkumannvirkja og iðnaðar eða þjónustu þeim tengdum verða auðvitað að skapa aukin atvinnutækifæri í landinu.

Herra forseti. Nokkuð hefur borið á því í umræðunni að erfitt muni vera að byggja vatnsaflsvirkjanir í framtíðinni. Undir það vil ég ekki taka fyrirvaralaust, við hljótum alltaf að horfa á þá kosti þar sem saman geta farið hagsmunir þjóðarinnar og takmarkað inngrip í náttúruna, en margir þeir sem hafa verið á þessari skoðun hafa hins vegar litið til jarðvarmavirkjana sem framtíðarlausnar í þessu máli, í rammaáætlun 1 var t.d. nokkuð litið til jarðvarmavirkjana. Ég man ekki betur en að margir málsmetandi menn hafi látið afar jákvæð orð falla í garð slíkra framkvæmda en jafnframt hafnað vatnsaflsvirkjunum. Ég get ekki tekið undir slíkan málflutning, það verður að horfa á þessa hluti í samhengi, það verður að horfa á náttúruna og nýtingu í einhvers konar samhengi og það gengur ekki að einn daginn séu vatnsaflsvirkjanir í tísku, annan dag jarðvarmavirkjanir og svo kannski ekki neitt eða allt þess á milli. Bankar voru í tísku í fyrra, álver var í tísku í síðasta mánuði, netþjónabú er í tísku í dag, við Íslendingar höfum sérstakt lag á því að taka einn atvinnuveg og lyfta honum á stall og segja þá að hinir séu ómögulegir á meðan. Þetta tel ég vera afskaplega mikinn ljóð á okkar ráði.

Það er hlutverk okkar nú sem stöndum að þessu frumvarpi um breytingu á lögum á auðlinda- og orkusviði að skoða það svið sem þessi verkefni vinna eftir bæði út frá hagsmunum nýtingar og náttúru. Við verðum að líta til hraða framkvæmda út frá t.d. hraða sveitarstjórna í skipulagsmálum. Það þarf að skoða alla þætti þannig að þessi mál geti einhvern veginn unnið saman og við sem þjóð haldið áfram að vaxa og dafna með skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda sem við eigum á landi og legi og í höfðinu á okkur sjálfum. Menn hafa haldið því fram að eðlilegt sé að nýta fyrst röskuð svæði, ég get fallist á það. Þess vegna vil ég að menn leiti leiða til að hefja nýtingu orkuauðlindanna á Norðausturlandi til að treysta byggðina þar. Ég styð Norðlendinga í því að gera það.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór vandlega yfir nefndarálitið og ég ætla ekki að fara mjög ítarlega yfir það en það eru þó nokkur atriði sem mig langar til að víkja sérstaklega að. Í fyrsta lagi langar mig að ræða aðeins um tengslin við stjórnarskrána. Nefndin ræddi nokkuð ítarlega um það hvort réttarstaða sveitarfélaga og orkufyrirtækja í þeirra eigu veiktist vegna takmarkana frumvarpsins á varanlegu framsali vatns- og jarðhitaréttinda. Þegar lá fyrir álit Eiríks Tómassonar prófessors til málsins en hann taldi svo ekki vera. Á fundum nefndarinnar gerðu Sigurður Líndal og Karl Axelsson grein fyrir áliti sínu og töldu þeir að ákvæði þetta bryti ekki í bága við stjórnarskrá. Þá er viðurkennt og það kom berlega fram í vinnu nefndarinnar og er tekið fram í nefndaráliti að löggjafinn hafi meira svigrúm til inngrips í eignarréttinn þegar hann á tilurð sína að rekja til opinberrar leyfisveitingar. Meiri hluti nefndarinnar telur því, miðað við þær upplýsingar sem hún hafði, að ákvæði frumvarpsins eins og þau lágu fyrir séu í fullu samræmi við stjórnarskrá.

Herra forseti. Nefndin lagði til að bann við varanlegu framsali vatnsréttinda verði hækkað úr 7 megavöttum í 10 megavött. Var það gert til samræmis við önnur lög. Til að setja þessar stærðir í samhengi er gaman að geta þess að Mjólka, mjólkurkýr Vestfirðinga, er rúm 8 megavött, Laxá er 28 megavött, Búrfellsvirkjun er 270 megavött, Hvesta, sem þykir afar stór bændavirkjun, er 1,5 megavött.

Annað grundvallaratriði í frumvarpinu er tímabundinn afnotaréttur á orkuauðlindum en í frumvarpinu er boðuð grundvallarbreyting á meðferð eignarréttar á vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl að ákveðnu magni. Tekið er fyrir að ríki og sveitarfélögum sé heimilt að selja eignir sínar út á markað en gert er ráð fyrir að þessum aðilum og sérstökum eignarhaldsfélögum sem alfarið eru í eigu þeirra sé heimilt að veita einkaaðilum tímabundin afnot af þeim vatns- og jarðhitaréttindum sem háð eru framsalstakmörkunum til allt að 65 ára með þeim skilyrðum að úthlutað sé án mismununar og að þau stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda og fjárfestingu í mannvirkjum.

Það komu fram nokkuð skiptar skoðanir um þetta í vinnu nefndarinnar, sumir töldu að þetta væri of langur tími, eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson gerði grein fyrir í áliti sínu. Eins komu fram sjónarmið um að þessi tími mætti vera lengri og það kom glöggt fram hjá orkufyrirtækjunum að þau töldu svo vera þannig að um þetta mál var ítarlega fjallað í vinnu nefndarinnar. Þá lá fyrir álit tveggja hagfræðinga, vönduð greinargerð sem fylgdi frumvarpinu, þar sem þeir röktu þau efnahagslegu áhrif sem slík takmörkun hefði í för með sér og það var fjallað töluvert um það, en meiri hluti nefndarinnar var sammála um að afar mikilvægt væri hvernig staðið verði að fyrirkomulagi afnotaréttarins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að nefnd á vegum forsætisráðherra verði sett á laggirnar og hún hafi það hlutverk m.a. að móta fyrirkomulag á leigu vatns og jarðhita og þeim réttindum sem eru í eigu ríkisins. Meiri hluti nefndarinnar leggur ákaflega mikla áherslu á að sú nefnd hafi víðtækt samráð og taki mið af þeim reglum sem þegar eru í gildi um eignarráð ríkisins. Í því sambandi má nefna þjóðlendur. Rétt er að taka fram að nefndin kallaði líka fyrir sig nokkra hagfræðinga til að ræða betur um þennan efnahagslega þátt og að það mátti finna samhljóm hjá þeim og því áliti sem þegar lá fyrir af hálfu iðnaðarráðuneytisins en nefndin taldi samt sem áður út frá þeim rökum sem fyrir lágu að þessi tími væri rétt skammtaður en taldi þó ástæðu til að setja inn breytingarákvæði í 1. gr. þannig að handhafi afnotaréttar skuli að liðnum helmingi afnotatímans eiga rétt á viðræðum við leigjendur um framlengingu. Nefndin taldi nauðsynlegt að nefnd forsætisráðherra fjallaði þá sérstaklega um það hvernig eigi að fara með endurnýjun afnotasamninga í því ljósi og leggur nefndin því til breytingar í samræmi við það. Ég vil ítreka mikilvægi þess að þessi nefnd nýti sér þá þekkingu sem býr í þjóðfélaginu á þessum málum, hafi víðtækt samráð og hafi að leiðarljósi að gætt sé að auðlindum okkar.

Herra forseti. Við þurfum ekki að rifja upp átökin í Reykjavíkurborg vegna Orkuveitu Reykjavíkur sl. haust. Ein rótin að þeim deilum var sú að hætta væri á að Orkuveita Reykjavíkur nýtti fjármuni úr einkaleyfisrekstri í samkeppnisrekstur eða útrás. Þetta atriði hefur verið umdeilt frá setningu raforkulaga, þ.e. hvernig eigi að fara með aðskilnað ólíkrar starfsemi hjá fyrirtækjunum. Þetta frumvarp tekur á þessu álitamáli og ég er afar sátt við þá leið sem frumvarpið fer í þessu efni. Ég verð að segja að ég get ekki tekið undir orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að með þessu sé einhver hætta á ferðinni, ég held miklu frekar að það hafi verið nauðsynlegt og hefði raunar átt að gera það strax við setningu raforkulaganna að leggja til að fara þessa leið. Það var til umræðu eins og hv. þingmaður veit í aðdraganda þeirrar lagasetningar en niðurstaðan á þeim tíma var sú að gera þetta ekki. Ég held að ef við teljum að það sé akkur í því að efla bæði starfsemi orkufyrirtækjanna, gera starfsemina gegnsærri og leita leiða til að auka samkeppni, þá hljóti þetta að vera eina skynsamlega leiðin til að fara, ég sé ekki hvernig það getur verið með öðrum hætti. Ég trúi ekki að menn vilji ekki að orkufyrirtækin þróist heldur séu áfram — hvað á ég að segja — jafnþung og mörgum hefur þótt þau vera í gegnum tíðina. Mér finnst þetta því vera skynsamleg leið og ég er sérstaklega ánægð með að hún er valin.

Í frumvarpinu er gerð krafa um að veitufyrirtækjum sem hafa einkaleyfi til starfsemi og eru af ákveðinni stærð verði óheimilt að stunda samkeppnisrekstur á orkusviði, þ.e. framleiðslu og sölu raforku og verði sá þáttur því að fara í sjálfstætt fyrirtæki. Eins og ég segi tók nefndin undir það sjónarmið frumvarpsins að ekki sé ástæða til að láta slíkt ákvæði ná til smærri fyrirtækja enda ljóst að um nokkurn kostnað af slíku yrði að ræða fyrir þau. Það fyrirtæki sem kannski helst nálgast þetta að stærðarmörkum er Orkubú Vestfjarða, Orkuveita Húsavíkur er töluvert minna fyrirtæki, og síðan Rafveita Reyðarfjarðar sem er afar smátt fyrirtæki og ekki eðlilegt að leggja það á slík fyrirtæki að taka á sig þannig skyldur.

Fyrirtækin hafa nú þegar stigið ákveðin skref til að mæta þessu og höfðu gert það áður vegna þess að menn hafa talið að það sé eðlilegt að færa samkeppnisreksturinn frá einkaleyfisrekstri. Ég get t.d. nefnt orkusöluna þar sem menn hafa gert þetta nú þegar og ég veit ekki betur en að mönnum hafi þótt það vera til bóta að hafa þetta skýrt. Ég vil líka taka fram, vegna þess að sagt er að samkeppni hafi ekki verið nóg, að auðvitað má alveg segja að við hefðum viljað sjá hana meiri og við skulum ekkert gleyma því að þessi lög eru einungis fimm ára gömul og í þeim felast gríðarlega miklar breytingar og menn verða að átta sig á því að svona tekur tíma. Samkeppnisstofnun er eindregið þeirrar skoðunar að þessi breyting muni og sé til þess fallin að ýta undir samkeppni. Það er skoðun mín að það sé til nokkurs að vinna að ná samkeppni á þessu sviði.

Hins vegar er það álit meiri hluta nefndarinnar að ástæðulaust væri að eignarhald á dreifiveitum flutningsfyrirtækis yrði að vera að tveimur þriðju hlutum hjá opinberum aðilum, nóg væri að um einfaldan meiri hluta væri að ræða. Þannig væri t.d. hægt að ýta undir áhuga fjárfesta, t.d. lífeyrissjóða, sem að mínu áliti væru heppilegir fjárfestar t.d. hjá dreifiveitunum. Ég vil líka taka fram út af þessu að það er á engan hátt hægt að skilja þetta frumvarp þannig að það sé verið að einkavæða Landsnet, (Gripið fram í.) það er ekki hægt að skilja það með þeim hætti. Ef menn ætla að fara í slíkt er það algjörlega allt annað mál. Mér finnst ekki sanngjarnt að segja að það sé verið að gera slíkt, það er bara ekki rétt.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum vegna þessa frumvarps sem hér liggur fyrir. Ég vil endurtaka að starfið í nefndinni var árangursríkt, þetta er flókinn málaflokkur og það er afar mikilvægt að vandað sé til verka. Í mínum huga er ekkert óeðlilegt að löggjöf af þessu tagi sé nokkuð lengi í þróun. Nú liggur fyrir að til stendur að endurskoða raforkulögin í heild og þar mun án efa fara mikil vinna fram. Ég tel að frumvarpið í þeim búningi sem það nú liggur fyrir verði okkur gagnlegt og ég vona að það fái framgang hér á hinu háa Alþingi. Ég vil þó taka fram í samræmi við það sem ég sagði hér í upphafi að reglurnar verða að vera þannig að þær stuðli að heilbrigðri nýtingu og vernd í landinu. Á því byggist vöxturinn.