135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:48]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þingheimur hafi greint nokkra bitru í orðum hv. þingmanns um að auðlindir sem ekki eru virkjaðar hér og nú væru auðlindir í dvala og nýttust ekki landi og þjóð. Ég hlýt að vara eindregið við því að við horfum eingöngu til skammtímagróða í þessu sambandi. Við þurfum að horfa til lengri tíma og þess vegna hef ég hef lagt fram tillögu um að tekið verði sérstaklega á réttindum og skyldum varðandi leigusamninginn sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Það er nefnilega ekkert tekið á því í frumvarpinu og tillaga meiri hluta nefndarinnar fjallar eingöngu um það að skýra réttindi leigutakans og þá aðeins til framlengingar samningsins.

Ég hef lagt fram tillögu um að þetta verði gagnkvæmur réttur og hann verði bæði til endurskoðunar og til uppsagnar vegna þess að aðstæður geta breyst mjög á 35 árum og ég tala nú ekki um á 65 árum. Við gætum staðið frammi fyrir þeim veruleika innan 65 ára að hér væri möguleiki á því að flytja til að mynda rafmagn um sæstreng til Evrópu. Leigutakinn hefði þá ráðstöfunarrétt á því hvað hann gerði við rafmagnið ef hann fengi hærra verð fyrir það þar og gæti þannig mögulega skrúfað fyrir einhverja aðra notkun á því. Það er mjög mikilvægt að þetta sé tekið skýrt inn í réttindi og skyldur beggja aðila. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er hún ekki tilbúin til að styðja þessa tillögu mína sem, eins og ég sagði áðan, gengur lengra en tillaga meiri hluta nefndarinnar?