135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:50]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi vikið sérstaklega að því í ræðu minni að við þyrftum að horfa fram í tímann þegar orkuauðlindir eru annars vegar og ég held að ég hafi líka sagt að tækniframfarir séu nokkuð hraðar á þessu sviði og að þess skuli sjást merki sem við gerum hér. Ég veit ekki betur en að ég hafi sagt það. Ef það hefur ekki verið skýrt ítreka ég það að ég held að það sé skylda okkar að horfa á hlutina dálítið vítt. Þegar ég nefndi Bitruvirkjun, sem ég bjóst nú við að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir tæki eftir og hlustaði á, og þau sjónarmið mín að auðlindirnar væru þá í dvala, þá vildi ég draga það fram vegna þess að frumvarpið er til þess gert að setja ramma utan um hugsanlega nýtingu á þessum auðlindum. Í því felast ákveðin fyrirheit um að þetta séu verðmætar auðlindir sem við vitum að þær eru. En ef við komumst að þeirri niðurstöðu hér á Íslandi að við getum ekki nýtt þær á neinn hátt — ég er ekki að tala um í dag, ég er að horfa fram í tímann — þá skiptir þessi lagasetning ekki öllu máli. Það er það sem ég er að segja. Ég veit að margar aðrar þjóðir eru nú hugsi yfir því hvernig við högum okkur hér á ýmsan hátt. Sumir telja að við höfum gengið of langt, aðrir of skammt. En ég held að við getum verið alveg sammála um að þessar auðlindir okkar eru afar dýrmætar og einstakar fyrir margra hluta sakir.

Þegar við setjum reglur, sem eru auðvitað fyrst og fremst til að setja ákveðin skilyrði um það hvernig við ætlum að gera hlutina, þá er það ekki til nokkurs ef við viljum ekki gera nokkurn skapaðan hlut. Þetta er mitt sjónarmið. En ég verð að segja út af því sem hv. þingmaður spurði um, hvort ég styddi tillögu hennar, þá geri ég það ekki. Ég er mjög sátt við þá leið sem valin er í frumvarpinu og ég stend við hana.