135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:52]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun auðvitað reyna á milli umræðna að telja meiri hlutann á mitt band í þessu efni. Það eru tvö atriði sem mig langar til að gera athugasemdir við vegna orða hv. þingmanns í ræðu hennar áðan. Í fyrsta lagi það sem varðar REI-málið, að hættan þar hafi verið fólgin í því að verið væri að nota afrakstur af sérleyfisrekstri í útrás. Í mínum huga er hættan sem fólgin var í REI-málinu einfaldlega sú að það stóð til að stela eigum almennings í landinu, bæði hvað varðaði efnislegar eignir og ekki síður hvað varðaði þá þekkingu og þann grunn sem þetta fyrirtæki starfar á. Það var sú hætta sem ég sá í þessu máli og sem landsmenn sáu í því.

En ég vil ekki fara frá þessu máli öðruvísi en að segja að það að auðlindir liggi í dvala séu þær ekki nýttar hér og nú, er svolítið hættulegur hugsanagangur. Við verðum að átta okkur á því að ef við ætlum að nýta hlutina, raforkuna okkar og hvað sem er með sjálfbærum hætti, þá verðum við að gera það þannig að við tryggjum að afkomendur okkar, að kynslóðirnar sem koma á eftir okkur hafi jafnan aðgang að slíkri nýtingu og við höfum í dag, a.m.k. ekki verri, helst betri. Við eigum ekki að göslast um eins og okkar kynslóð gerir og við sem hér stöndum hér og nú, að þetta sé allt okkar prívatmál og við getum klárað það ef okkur sýnist svo.

Að lokum ein stutt athugasemd: Að selja orkuna háu verði, lýst var stuðningi við það. Er það svo víst að raforkan sé seld háu verði til álfyrirtækjanna í landinu? Ég held ekki, herra forseti.