135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:16]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil athugasemdir hv. þingmanns og tek undir að sjónarmið voru um að samkeppni skorti í þessum geira og að auka þyrfti hana sem gerir það að verkum að þessi leið er farin og ég held að í því sé út af fyrir sig ekkert neikvætt heldur fyrst og fremst jákvætt. Það er svo vandasamt að spá og sérstaklega um framtíðina að ég vil ekki á þessu stigi spá neinu um það hvað gert verði ef þetta nægir ekki til þess að koma á samkeppni. En eins og við vitum er að mörgu leyti örðugt að koma upp virkri samkeppni á jafnlitlum markaði og Ísland er því að allt þetta regluverk er hugsað fyrir Evrópumarkaðinn, meginlandsmarkaðinn, þar sem eru jafnmargar milljónir og við erum þúsundir hér og allt aðrar aðstæður í sjálfu sér. Það má því efast um að okkur takist að koma mjög virkri samkeppni á á þessu sviði. Ég held að það sé þó ekki annað eðlilegt en að við leitumst við að tryggja hagsmuni neytenda og þar með almennings í landinu með því að örva þá samkeppni eins og kostur er.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég skil hinar ýmsu athugasemdir og að hún hefði í ýmsum atriðum viljað ganga lengra, hvort henni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þyki þó ekki í öllum aðalatriðum að þetta mál horfi til framfara og sérstaklega það að tryggja eignarhald almennings á þeim auðlindum sem eru í opinberri eigu í dag.