135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:20]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verður hv. þingmaður að ráða því sjálf hvað vekur henni depurð og hvað ekki. Ég held þó að sjálfsagt sé að fara í aðskilnaðinn vegna þess að það blasir við hverjum þeim sem skoðar þennan markað að stærstu vandkvæðin við að reyna að hasla sér þar völl fyrir nýja aðila, og þar með að auka fjölbreytni og auka samkeppni í geiranum, er hversu gríðarlega stór fyrirtæki það eru sem eru allsráðandi á honum og eru eignar- og rekstraraðilar á öllum sviðum, hvort sem það eru flutningskerfin, dreifiveiturnar, framleiðslan eða smásalan, þar sem eitt fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur er í raun með alla neytendurna hjá sér, þ.e. höfuðborgarsvæðið, þar er langstærsti hluti neytendanna, og annað fyrirtæki, Landsvirkjun, með sennilega hátt í 90% af framleiðslunni í landinu. Sömu aðilar eru síðan inni á mörgum öðrum sviðum í raforkugeiranum og það er ekki nema eðlilegt að reyna að leitast við að auka þarna aðskilnað og brjóta upp á milli þáttanna í starfseminni.