135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:21]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum á auðlinda- og orkusviði. Eins og fram hefur komið í máli þingmanna sem hafa þegar talað er þetta eitt af þeim málum sem ríkir grundvallarágreiningur um í röðum stjórnmálaflokkanna og sá ágreiningur er ekki nýr af nálinni. Í raun má segja að saga málsins sé kannski tólf ára löng sorgarsaga, vil ég meina, frá því að innleiðing Evróputilskipunar um samkeppni á raforkumarkaði kom fyrst til umræðu í þessum þingsal. Þá voru þau sjónarmið höfð uppi af örfáum þingmönnum að e.t.v. væri skynsamlegast og réttast að beiðast undanþágu frá þeirri tilskipun, enda ætti hún ekki á nokkurn hátt við þann raforkumarkað sem hægt væri að reka á Íslandi í ljósi landfræðilegrar staðsetningar landsins og þeirra orkuauðlinda sem hér eru til staðar.

Því miður var ekki farið að ábendingum þeirra skynsömu þingmanna sem þá töluðu, en það voru hv. þingmenn Hjörleifur Guttormsson, Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Eftir að ljóst var að lítill hljómgrunnur var fyrir því sjónarmiði og eftir að uppstokkun og breytingar á hinu pólitíska litrófi hafa orðið eru það þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa staðið í því að malda einatt í móinn þegar lög af því tagi eða breytingar á lögum koma til umfjöllunar á Alþingi sem varða samkeppnismál á raforkumarkaði. Þetta er eitt mál af því tagi. Þess vegna er það Vinstri hreyfingin – grænt framboð og þingmenn þess flokks sem standa í andófi við stjórnarmeirihlutann, andófi sem byggir á meginskoðunum okkar í orkumálum og auðlindanýtingarmálum. Inn í þau mál fléttast náttúruverndarmálin. Því er um viðamikið og yfirgripsmikið mál að ræða. Eins og bent er á í áliti 2. minni hluta nefndarinnar, í fylgiskjali III, sem er umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, koma saman í þessu eina máli grundvallaratriði um grundvallarmál sem eru af ólíkum toga, álitamál sem varða eignarhald á náttúruauðlindinni, sem varða þá nýtingu náttúruauðlindarinnar, hvernig nýtingunni sé háttað, í hverra höndum hún eigi að vera o.s.frv.

Sú náttúruauðlind sem er í brennidepli er einmitt vatn í hinum ýmsu formum. Þær breytingar sem snerta vatn og vatnsauðlindina varða löggjöf af ýmsu tagi, vatnalögin frá 1923, vatnalögin frá 2006, sem enn eru ekki til lykta leidd, ágreiningur um vatnalögin frá 2006 er enn ekki til lykta leiddur því að enn starfar á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í þeim lögum nefnd sem var fengið það hlutverk að skoða til hlítar ákveðna þætti innleiðingar þeirra laga. Ég sit í þeirri nefnd og fékk þann 15. janúar sl. skipunarbréf frá iðnaðarráðuneytinu um starfssvið þeirrar nefndar. Í skipunarbréfinu segir að nefndin sé sett á laggirnar með vísan til samkomulags allra þingflokka við afgreiðslu upphaflegs frumvarps til vatnalaga. Iðnaðarráðherra ákvað að skipa þá nefnd sem hefði það hlutverk að skoða samræmi nýrra vatnalaga við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, þar á meðal fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga sem byggir á vatnsverndartilskipun Evrópusambandsins og sömuleiðis eigi nefndin að hafa til hliðsjónar tillögur nefndar iðnaðarráðherra sem skipuð var á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Ég var einmitt í þeirri nefnd líka sem skilaði af sér yfirgripsmikilli skýrslu með fjölda tillagna. Fólk verður að átta sig á því að um er að ræða stórt mál sem tengist ýmsu öðru í lagaflóru okkar og í þeim umræðum sem eiga sér stað um nýtingu orkuauðlindanna og náttúruvernd í framhaldi af því.

Þetta segi ég til að varpa örlítið skýrara ljósi á hvaðan ágreiningurinn er kominn og um hvað þessi grundvallarágreiningur snýst. Það sem segja má að sé stærsta atriðið í áliti 2. minni hluta, hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur — nú sé ég að ég hef gleymt aðalblaðinu mínu, ég er með fullt af bókum og skýrslum en gleymdi gula blaðinu mínu með punktunum á borðinu mínu. Ég vona að einhver hjálpsamur þingmaður afhendi mér punktana á gula blaðinu. Það er samanbrotið blað sem liggur sennilega efst á borðinu mínu. Ef það finnst ekki hlýt ég að reyna að taka þetta eftir minni. Blaðið er á borði Karls V. Matthíassonar sem ég sé að hv. þingmenn leita með logandi ljósi að … (Gripið fram í: … hafa eitthvað frá Kalla.) (Gripið fram í.)

Nei, nei, þetta er allt í lagi, hæstv. forseti. Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessum efnum er að verið er að leggja til í frumvarpinu breytingar á eignarhaldi þeirra fyrirtækja sem framleiða og dreifa orku. Eins og orðað er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er markmiðið „að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja.“ Það er gert samkvæmt orðanna hljóðan „til að tryggja að öll mikilverðustu vatns- og jarðhitaréttindi sem nú eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, beint eða óbeint, haldist áfram í eigu þessara aðila.“ Þetta grundvallaratriði og grundvallarmarkmið frumvarpsins styðjum við Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

Til þess að ná því markmiði eru hins vegar lagðar fram ýmsar tillögur. Þar skilur leiðir eins og oft áður því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þar sem starfsemi dreifi- og hitaveitna byggir á sérleyfum verði opinbert eignarhald einungis tryggt að hluta. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að í dreifiveitunum verði hægt að selja allt að 49% eignarhlut og nú vitum við og höfum heyrt það hjá stjórnarliðum í umræðunni að engin áform eru um slíkt. Hins vegar hræða sporin í þessum efnum. Um leið og búið er að segja A í þessum efnum, þegar búið er að opna fyrir möguleikann er um leið kominn fótur í dyragættina. Um leið eru komnir einhverjir aðilar sem gera kröfu um að hið mögulega verði framkvæmt.

Ekki nóg með það að opnað sé á þennan möguleika, þ.e. að 49% eignarhlutur í dreififyrirtækjunum verði seldur til einkaaðila, er líka gert ráð fyrir að 100% eignaraðild sölufyrirtækjanna, framleiðslufyrirtækjanna geti farið yfir til einkaaðila. Staðan í eignarhlutamálum núna er sú að það er einungis Hitaveita Suðurnesja sem er að litlu leyti komin í hendur einkaaðila en verið er að opna á þann möguleika að framleiðslufyrirtækin geti verið alfarið í eigu annarra en opinberra aðila.

Þessir þættir frumvarpsins bjóða hættunni heim að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég sagði áðan: Sporin hræða í þessum efnum. Við höfum oft orðið vitni að því að yfirlýsingar hafi komið frá stjórnvöldum um að einhverjir möguleikar sem opnist í lagasetningu þurfi ekki endilega að þýða að vaðið verði áfram og allt framkvæmt sem mögulegt er. En hættan er til staðar og það nægir því að hér er um að ræða stór álitamál sem ekki eru leyst að öðru leyti. Í vatnalaganefndinni, sem ég á sæti í, eru álitamálin varðandi eignarrétt að vatnsauðlindinni. Þau álitamál eru enn öll uppi á borði með sama hætti og þau voru þegar við vorum að vinna í aðdraganda þeirrar lagasetningar, vatnalaganna.

Hinn óleysti hnútur, um eignarhald á vatni, er uppi á borði þeirrar nefndar. Meðan ekki hefur verið hægt að greiða úr þeim álitamálum sem átökin um eignarhald á vatni hafa skapað tel ég afar óráðlegt að setja ákvæði af því tagi sem hér um ræðir í lög. Þar til ágreiningurinn um eignarhald á vatni er endanlega leystur eigum við að sýna fulla varkárni hvað þetta varðar og tryggja með öllum ráðum að eignarhald á auðlindinni og þeim fyrirtækjum sem um hana sýsla sé að mestu leyti, eins og við mögulega getum, í eigu opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga. Þar tel ég að skylda okkar liggi.

Þetta skiptir líka máli til þess að stjórnvöld átti sig á heildarmyndinni. Það er verið að vinna áætlanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Sú vinna er í fullum gangi, hefur verið frá 1997. Það eru ein 11–12 ár síðan loksins voru sett af stað áform um að búa til heildstætt plan, nýtingarplan og þá um leið verndarplan, sem lyti að því að ákveða í eitt skipti fyrir öll á hvaða svæðum orkufyrirtækjum yrði gert kleift að vinna raforku á og á hvaða svæðum á landinu raforkuvinnsla væri ekki heimiluð. Enn hefur okkur ekki tekist að lenda því máli. Ef að líkum lætur lendum við ekki í því máli fyrr en á árinu 2010 því þó að á næsta ári verði mögulegt að megindrög nýtingaráætlunarinnar geti verið til á slík áætlun eftir að fá meðhöndlun á Alþingi og menn eiga eftir að takast á um hana. Það er í fyrsta lagi á árinu 2010 sem rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma getur fengið einhvers konar lagagildi þannig að hægt verði að fara að vinna eftir henni.

Ég segi því: Það er fyrst þegar grundvallarágreiningurinn um eignarhald á vatni hefur verið leystur og nýtingaráætlun sem Alþingi Íslendinga samþykkir er komin í gegnum Alþingi sem við getum farið að klára þætti sem lúta að því sem frumvarpið varðar, þ.e. hvernig eignarhaldinu eigi að vera háttað á þessum fyrirtækjum, hvernig eignarhaldi eða utanumhaldi um auðlindina verður best komið í því umhverfi sem við ákveðum að hafa fyrir orkunýtingu og náttúruvernd í landinu.

Ég tel, hæstv. forseti, að sýna hefði átt ýtrustu varkárni og ég tel meira að segja að slíkt sé í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda eins og hún birtist í skýrslunni Velferð til framtíðar sem gefin var út á árinu 2002. Reyndar erum við svo heppin að við erum með endurnýjaðar áherslur þeirrar ríkisstjórnar sem fór frá við síðustu kosningar. Það hefur ekki verið borið til baka að þær áherslur séu enn áherslur þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar. Þær áherslur voru gefnar út 2006 og eiga að gilda til ársins 2009.

Um markmiðin með sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda segir þar að við eigum að stefna að því með ráðum og dáð að endurnýjanlegar orkuauðlindir landsins verði nýttar með hagkvæmni og umhverfisverndarsjónarmið að leiðarljósi, að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun þjóðarinnar verði aukið og að því stefnt að notkun jarðefnaeldsneytis verði óveruleg innan fárra áratuga, sömuleiðis að stefnt verði að því að farartæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum eins fljótt og kostur er og hagkvæmt þykir. Þá er talað um að skipulag raforku- og hitaveitumála verði með þeim hætti að skilvirkni, öryggi og heildarhagkvæmni þess verði sem best tryggð og stuðlað verði að aukinni orkunýtni. Þegar þessi áform stjórnvalda eru skoðuð, hæstv. forseti, áttum við okkur á því að heildarmyndin er það margslungin að óráðlegt er að taka jafnafdrifaríkar ákvarðanir og frumvarpið gerir ráð fyrir að gert verði á meðan aðrir þættir málsins hafa ekki verið leiddir til lykta.

Hæstv. forseti. Fram kom í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, þegar hún flutti nefndarálit 2. minni hluta fyrr í morgun, að óásættanlegt væri hversu mikill kostnaður hefði verið í þeirri uppskiptingu sem við fórum í gegnum þegar tilskipunin um samkeppni á raforkumarkaði var innleidd. Samkeppni í framleiðslu og sölu hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Það er alvarlegt og athyglisvert og menn skulu átta sig á því að neytendur hafa ekki verið að skipta um raforkusöluaðila. Það skiptir með öðrum orðum þá sem nýta raforku á Íslandi litlu eða engu máli við hvert af þessum fyrirtækjum þeir skipta. Þegar dregið er fram í dagsljósið að kostnaðurinn við þá breytingu sem þá var farið í er 5–6 milljarðar kr. og hækkun orkuverðs frá því að breytingin var gerð er að mestum hluta komin til vegna þeirrar uppskiptingar þá er það undirstrikun og árétting á þeim orðum mínum að sporin í þessum efnum hræða. Uppskipting markaðarins í þetta samkeppnisumhverfi, eða hönnun og smíði þess umhverfis, hefur nú þegar kostað íslenska neytendur gríðarlega fjármuni.

Það er í sjálfu sér ámælisvert að meiri hlutinn sem nú situr og þrýstir þessu máli í gegn, sem kveður á um þennan fyrirtækjaaðskilnað, þar sem við gerumst kaþólskari en páfinn, af því að tilskipunin gerir ekki ráð fyrir því að farið verði í hin ýtrustu mörk eins og meiri hlutinn leggur til — ég spyr: Af hverju sættir meiri hlutinn sig við að ekkert kostnaðarmat liggi til grundvallar? Er það nægilega ábyrgt af meiri hluta í ríkisstjórn að fara með lagafrumvarp af þessu tagi í gegn án þess að hægt sé að segja almenningi hver reikningurinn verður? Hversu mikla viðbót eigum við að fá, neytendur, við þá 5–6 milljarða sem við höfum þegar greitt af vitleysunni við innleiðingu samkeppni á raforkumarkaði?

Hv. þingmenn stjórnarliða ræða um flutning á raforku gegnum sæstreng til útlanda með vonarglampa í augum en tekist hefur verið á um þá hugmyndafræði áður: Hvað þýðir það í virkjunum á Íslandi ef menn ætla í alvöru að fara að keppa að því að búa hér til raforku fyrir erlendan markað þannig að eitthvað verði til sem mögulega gæti heitið samkeppnisumhverfi? Þá þýðir það ekkert annað en full virkjun Íslands, fórn flestra eða allra náttúruperlna á Íslandi sem tengjast vatnsauðlindinni hvort sem það er jarðvarma eða vatnsafli. Þá eru menn farnir að tala um svo gríðarlega alvarleg mál að ég bið fólk að draga niður í ljóskastaranum þar sem vonarglætan lýsir hvað skærast. Þetta eru óraunhæf markmið, sérstaklega á meðan við getum ekki nýtt jarðvarmaauðlindina okkar meira en 10–12% þegar við erum að virkja í þessum töluðu orðum til að framleiða raforku og jarðvarma.

Það er ekki ásættanlegt að fórna þeim háhitasvæðum sem við eigum í virkjun til raforku sem stórfyrirtækin nýta vegna þess að nýtingin í þeim tilfellum er svo léleg. Hún er ekki nema 10–12% í hæsta lagi. Varminn fer til spillis. Menn hafa ekki enn fundið ásættanlegar aðferðir til að dæla varmanum niður og engar sannanir liggja fyrir um það að menn geti viðhaldið jarðvarmanum í jarðvarmatankinum með þeim aðferðum sem menn hafa í dag.

Allt mælir með því að menn hægi á, fari ekki alla leið út á þessa braut hvað frumvarpið áhrærir. Leitum enn leiða til að tryggja að auðlindirnar okkar verði áfram í almannaeigu en látum staðar numið hvað annað mál í frumvarpinu varðar þannig að ekki verði farið alla leið í þessum uppskiptingarmálum. Eins og hér hefur verið vikið að, og rök færð fyrir, býður það einungis hættunni heim. Við erum ekki tilbúin til að taka þá áhættu, Íslendingar.

Með þessum orðum, hæstv. forseti, læt ég máli mínu lokið. Ég veit að þetta á eftir að halda áfram að vaka í máli næstu ræðumanna. Ég tel einboðið, og það hefur reyndar verið sagt fyrr í umræðunni, að málið verði tekið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. Ég treysti því að þá verði gerðar bragarbætur og breytingar hvað þessi álitaefni áhrærir.