135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:40]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í minnihlutaáliti 2. minni hluta iðnaðarnefndar segir hv. flokkssystir Kolbrúnar Halldórsdóttur, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, með leyfi forseta:

„Í áliti og breytingartillögum meiri hlutans er í litlu sem engu komið til móts við harðorð mótmæli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ekki var heldur hlustað á varnaðarorð sambandsins um að frumvarpið skerði stjórnarskrárvarinn sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.“

Svo aðeins sé farið í umfjöllun og í þetta álit Sambands íslenskra sveitarfélaga og farið yfir það sem þar stendur og verið er að gagnrýna, að meiri hlutinn hafi ekki tekið tillit til, þá segir m.a. í því áliti, þ.e. þessari frásögn af fundum stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, að þeir telji að ef ætlunin sé að frumvarpið verði að lögum sé eðlilegt að hámarksleigutími vatns- og jarðhitaréttinda verði lengdur og verði a.m.k. 99 ár svo að eitt atriði sé nefnt. Jafnframt er sagt í áliti þeirra að í framangreindum frumvarpsákvæðum felist augljós skerðing á eignarréttindum sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu þar sem ekki verði unnt að ráðstafa eignarrétti sveitarfélaga á almennum markaði eða t.d. breyta fyrirtæki og sveitarfélagi í almenningshlutafélög.

Þetta, virðulegi forseti, vildi ég draga fram og spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þeirri gagnrýni sem fram kemur í áliti 2. minni hluta um að meiri hlutinn hafi ekki hlýtt nógu vel á álit Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hér um ræðir. Það gerðum við svo sannarlega en vorum ósammála þessum atriðum. En við vorum hins vegar sammála þeim í því að tveggja milljarða markið væri óskýrt og þess vegna tókum við undir það með þeim og gerðum breytingar á því. Við vorum líka sammála þeim í því að eðlilegra væri að fjallað væri um meirihlutaeigu í stað aukins meiri hluta og þess vegna tók ég líka tillit til þess. Við vorum hins vegar ósammála áðurnefndum atriðum um að afnotarétturinn ætti að vera í 99 ár eða þessar auðlindir ættu hreinlega að vera á almennum markaði.

Ég spyr hv. þingmann: Hvar standa Vinstri grænir í málinu fyrst þeir taka svona harkalega til orða hvað það varðar að ekki hafi verið hlustað nógu mikið á Samband íslenskra sveitarfélaga þegar þeir komu fyrir nefndina?