135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar SÞ.

[15:03]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umræðuefni það stóra atriði að þann 11. júní rennur út frestur íslenskra stjórnvalda til að bregðast við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði hér á þinginu í maíbyrjun:

„Ég vona að svar ríkisstjórnarinnar liggi fyrir áður en þingið fer heim og ég geti gert grein fyrir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar.“

Í Silfrinu í gær töluðu bæði hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra með þeim hætti að það þyrfti eiginlega ekki að svara þessu en það yrði þó kannski að gera það sisvona. Nú sé ég að deilurnar eru hafnar og þegar þingið fer heim verður staða útgerðarinnar á Íslandi í enn meiri óvissu en nokkru sinni fyrr því að ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera í þessum málum. Hún ætlar að hafa tvær skoðanir. Karl V. Matthíasson, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar — (Gripið fram í: Varaformaður.) já, varaformaður, sem ætlar að verða formaður, hann sendi frá sér mikla yfirlýsingu um stefnu Samfylkingarinnar í beinu framhaldi af þessari óvissu: Fyrningarleiðin skal tekin upp. Samfylkingin er búin að finna sitt svar í málinu. Vinstri grænir, sem eru samfylkingarmenn inn við beinið, sýna alveg á sömu spil og Samfylkingin í dag.

Mig langar að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort draumar hæstv. sjávarútvegsráðherra um að sýna á þessi spil rætist og að ríkisstjórnin nái samstöðu áður en þingið fer heim. Ég bið því hæstv. forsætisráðherra um að taka einu sinni ærlega ákvörðun og klára þetta mál. Þetta er mannréttindamál, það fer illa með Ísland á alþjóðavettvangi ef við svörum því ekki (Forseti hringir.) og hér heima fyrir eru að verða átök um sjávarútveginn á nýjan leik.