135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar SÞ.

[15:08]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Nú þykir mér, hæstv. forseti, að Haarde-meinleysið sé orðið hart, að senda einn vænsta þingmann Samfylkingarinnar til Síberíu. Það er ekki að undra að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé dálítið sveittur í dag, ekki verður staðið við orð hans frá því 7. maí sl., þ.e. að niðurstaða ríkisstjórnarinnar liggi fyrir áður en þingið fer heim. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur verið niðurlægður á alþjóðavettvangi og hér heima. Ríkisstjórnin hafði tvær skoðanir og tvö álit í hvalveiðimálinu og niðurlægði hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hér liggur það fyrir, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra sem hefur enn ekki náð samstöðu í ríkisstjórninni um þetta mál, segir að enn sé langur tími til stefnu. En hvers vegna á þingið ekki að sjá það álit sem niðurstaða og samkomulag næst um? Við í stjórnarandstöðunni teljum að okkur varði um þetta mál, að við þurfum að koma að því eins og stjórnarliðar. (Forseti hringir.) Um þetta mál þurfum við að ná nokkurs konar þjóðarsátt.