135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

málefni hafnarsjóða.

[15:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fjallar hér um þá skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans hefur tekið saman um fjárhagsstöðu hafna á Íslandi og allt er það hárrétt sem hann setur þar fram.

Ég átti þess kost að fá lauslega kynningu á þessari skýrslu á fundi í Siglingastofnun í síðustu viku þar sem farið var yfir þessi atriði. Þar er talað um skuldastöðuna og annað slíkt, þær þrjár hafnir sem reka sig vel og ganga rekstrarlega séð en aðrar sem aftur eru í erfiðleikum. Þetta var fyrsta kynningin sem ég hef fengið á þessu og hún var bæði fróðleg og góð. Þar ákváðum við að málið skyldi líka kynnt fyrir Hafnasambandi sveitarfélaga og tekið fyrir í hafnaráði og hugsuðum við út í það í framhaldinu hvernig farið yrði í þetta.

Vandamálið, ef vandamál skal kalla, má rekja aftur til 2003 þegar hafnalögunum var breytt. Þær forsendur sem þar var lagt upp með hafa margar hverjar breyst, sem er þá vegna þess að í sumar hafnir er ekki mikið komið til að landa afla. Gjaldskráin virðist heldur ekki hafa hækkað í takt við það sem reiknað var með, sem var talið nauðsynlegt til þess að hafnirnar hefðu rekstrargrundvöll.

Ég vil ekki segja til um það á þessari stundu hvernig bregðast skuli við þessu, virðulegi forseti. Á þessum fundi kom líka fram að ýmislegt hefur gerst, landanir afla hafa í töluverðum mæli færst frá höfnunum úti á landi í stóru hafnirnar hér á höfuðborgarsvæðinu og þær hafa þá auðvitað minni tekjur.

Virðulegi forseti. Vegna spurningar hv. þingmanns (Forseti hringir.) vil ég geta þess að vinna við að fara í gegnum þessa ágætu skýrslu er hafin.