135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

málefni hafnarsjóða.

[15:14]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið og fagna því að einhver vinna verði sett í gang. Ég mun sjálfur óska eftir því að skýrslan verði kynnt í samgöngunefnd Alþingis, mér finnst mjög mikilvægt að samgöngunefnd fái kynningu á þessu máli.

Varðandi stöðu minni hafnarsjóða tel ég ljóst að endurskoða verði þær forsendur sem lágu til grundvallar þegar hafnalögin voru sett. Við verðum að horfast í augu við að litlu hafnirnar gegna mjög veigamiklu hlutverki, bæði sem samgöngumiðstöðvar, ef svo má segja, og sem lífæðar í atvinnulegu tilliti víða um land. Við verðum að horfast í augu við það. Eins og hæstv. ráðherra gat um eru það aðeins þrjár hafnir sem í raun geta staðið undir rekstrarkostnaði. Við eigum að horfast í augu við það að hvað aðrar hafnir varðar verðum við að líta á það sem samfélagslegt verkefni að treysta stoðir þeirra. Ég treysti því að sú vinna sem hæstv. ráðherra boðaði fari fljótt og vel í gang og að samgöngunefnd Alþingis fái að vera með í þeirri vinnu.