135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Ósabotnavegur.

[15:22]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í áratugi hefur það verið áhugamál Suðurnesjamanna að fá veg um Ósabotna, þ.e. milli Hafna og Stafness. Lagningu vegstæðis er nú lokið og vegurinn er ökufær en það á enn eftir að fullklára veginn með bundnu slitlagi. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. samgönguráðherra: Hvenær mega Suðurnesjamenn gera ráð fyrir að vegurinn verði fullfrágenginn með bundnu slitlagi?

Hér er um að ræða mikið hagsmunamál ferðaþjónustuaðila á Reykjanesi þar sem með þessum vegi opnast í fyrsta sinn sá möguleiki að aka hringveg um skagann. Það hefur verið áhugamál aðila í ferðaþjónustunni, bæði á Reykjanesi og annars staðar, að þessi leið opnist. Leiðin er bæði falleg og merkileg út frá sögu svæðisins og umhverfið er eftirsótt til útivistar.

Sá vegarkafli sem þarfnast bundins slitlags er ekki langur, aðeins örfáir kílómetrar. Ósabotnavegurinn er að hluta til tengdur við gamlan varnarliðsveg og er sá kafli fullfrágenginn og lagður bundnu slitlagi. Þess vegna getur kostnaður við þessa yfirlögn ekki verið mjög mikill en breytir miklu fyrir þá menningartengdu ferðaþjónustu sem er nú að byggjast svo skemmtilega upp á Suðurnesjum. Varla er möguleiki á að kynna þessa nýju leið nema vegurinn sé þannig frágenginn að ekki stafi hætta af fyrir vegfarendur. Þess vegna legg ég þessa spurningu fyrir hæstv. samgönguráðherra.