135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Ósabotnavegur.

[15:25]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka samgönguráðherra fyrir svarið. Eftir því sem ég best veit dugði þessi fjárveiting ekki til að klára þennan veg með bundnu slitlagi sem er auðvitað miður. En þrátt fyrir það hefur vegurinn eins og hann er núna mikið aðdráttarafl fyrir þá sem vita af honum. Ég er þess fullviss að fullkláraður mun hann hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Suðurnesjamenn eru nú þegar farnir að nýta hann til helgaraksturs og umhverfið í kring til útivistar. Ég vil þess vegna hvetja hæstv. samgönguráðherra til að skoða þetta mál nánar, þetta geta ekki verið svo miklir fjármunir sem þarna vantar á til að klára þetta fyrir okkur.