135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:34]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Sóltúnssamningurinn svokallaði var fyrsti samningurinn sem gerður var um rekstur heilbrigðisþjónustu sem beinlínis átti að skila arði til rekstraraðilans en það er fyrirtækið Öldungur hf. Miklar umræður urðu strax um samninginn og það fordæmi sem hann veitti inn í allt starfsumhverfi og varðandi kostnað við rekstur heilbrigðisþjónustunnar.

Hér á hinu hv. Alþingi urðu miklar og heitar umræður og óskað var eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar á útboði, hagkvæmni og kostnaði og fleira í tengslum við samning heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við Öldung hf. sem gerður var í apríl árið 2000. Með samningnum tók Öldungur hf. að sér að leggja til og reka hjúkrunarheimilið Sóltún 2 í Reykjavík sem áætlað er að þjóni 92 einstaklingum gegn greiðslu í formi daggjalds fyrir hvern vistmann.

Hæstv. forseti. Það er ekki að ósekju að við tökum upp umræðu um þennan téða samning því að ríkisendurskoðandi gerði þá úttekt og skilaði skýrslu sem óskað var eftir. Í þeirri skýrslu kom fram að samanburður á rekstri Sóltúns hf. og annarra samsvarandi hjúkrunaraðila í öldrunarþjónustu var Sóltúni í óhag að því leytinu til að reksturinn reyndist vera dýrari en reiknað var með og auk þess var það ákvæði í samningnum að hann ætti að skila eigendum sínum arði, eðlilega.

Þar sem samningurinn byggist einnig á einstaklingsbundnum greiðslum var stuðst þar við svokallaða RAI-mælingu en á þeim tíma var þessi mælieining óburðug, og er hugsanlega enn. Í þessu tilfelli eins og svo mörgum öðrum þá skellum við okkur í framkvæmdina án þess að vera nógu vel undirbúin og alls ekki undir það búin að fylgja samningnum eftir eða að hafa það eftirlit sem með þurfti til þess að hann skilaði sínu.

Þegar árið 2000 leiddi Sóltúnssamningurinn í ljós að daggjald til Sóltúns var 14% hærra en að undanskildum húsnæðiskostnaði var það 17% hærra. Nú hefur aldrei svo ég viti til komið fram ádeila eða nokkuð slíkt á það starfsfólk sem vinnur á Sóltúni eða þjónustuna sem þeir einstaklingar fá sem þar eru þannig að þetta á ekki við um það.

En núna í maí fóru að berast fréttir, fyrst í dagblöðum og síðan hingað inn á þing, um að ríkisendurskoðanda hefði verið falið að fara yfir þann ágreining sem upp hafi komið allt frá upphafi rekstrar Sóltúns um ýmsa þætti og þá sérstaklega hvað varðar álagsgreiðslur fyrir starfsemina þegar hjúkrunarþyngd var umfram viðmiðunarmörk. Þessi deila er enn óleyst á milli heilbrigðisráðuneytisins og Sóltúns. Eftir yfirferð um málið í heilbrigðis- og trygginganefnd er ljóst að til stendur að beina þessari deilu til sérstakrar sáttanefndar.

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga: Hvernig mun ráðherra bregðast við þeim alvarlegu athugasemdum sem komið hafa fram um framkvæmd Sóltúnssamningsins og lúta að mati á hjúkrunartengdum álagsgreiðslum? Hvaða umboð hafði ráðherra til að fara fram úr 106 millj. kr. aukafjárveitingu til greiðslu vegna krafna Öldungs hf. um vangoldnar álagsgreiðslur fyrir árið 2003–2006? Telur hæstv. ráðherra að faglegir og fjárhagslegir eftirlitsaðilar hafi bolmagn til að sinna lögboðnu eftirliti með RAI-matstengdum framlögum úr ríkissjóði með óbreyttri starfsemi? Ef ekki, hvað telur ráðherra að umfang (Forseti hringir.) eftirlitsaðila muni kosta? Hæstv. forseti. Það eru hér þrjár aðrar spurningar. Ég ætla að fá að lesa þær svo svar ráðherra komist til skila.

Mun ráðherra í ljósi þessa taka upp (Forseti hringir.) Sóltúnssamninginn til grundvallarendurskoðunar? Mun ráðherra endurmeta (Forseti hringir.) áform um frekari einkarekstur í hjúkrunarþjónustu aldraðra í ljósi þess að rekstur Sóltúns hefur reynst dýrari fyrir ríkissjóð (Forseti hringir.) en rekstur sambærilegra hjúkrunarstofnana bæði vegna ákvæða í samningi um arðsemi til rekstraraðila (Forseti hringir.) og eins hærri álagsgreiðslna á sambærilegum hjúkrunardeildum? Mun ráðherra beita sér fyrir að jafnræðissjónarmiða sé gætt við veitingu fjármagns til öldrunarstofnana? Ég biðst afsökunar, hæstv. forseti, fyrir að hafa farið fram úr tímanum en ég tel að það skili sér betur í ræðu hæstv. ráðherra.