135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sóltún er af mjög mörgum talin sú stofnun þar sem þjónusta er hvað best fyrir þá sjúklinga sem þurfa mikla hjúkrun og viðhald endurhæfingar. Samningur er í gildi á milli heilbrigðisráðuneytisins og Sóltúns en ríkið velur vistmennina og þeir koma jú flestir af Landspítalanum. Þeir þurfa mikla umönnun, um það er ekki deilt. Hjúkrunarþyngdin er þar af leiðandi meiri en víða annars staðar sem kallar á hátt þjónustustig. Greiðslur ríkisins hækka fari þjónusta upp fyrir viðmiðunarmörk samnings. Deilur hafa hins vegar verið um greiðsluþáttinn sem ríkið telur oftalinn og Ríkisendurskoðun telur að ekki skuli greitt samkvæmt reikningum Sóltúns. Samt deila aðilar ekki um það að þjónustan var veitt og heldur ekki um að rétt hafi verið staðið að henni heldur að ekki hafi verið rétt staðið að skráningu.

Sú aðferð virðist byggð á mjög umdeildu bréfi heilbrigðisráðuneytisins frá árinu 2005 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Því aðeins er raunhæft að halda endurhæfingu áfram að hún hafi sýnt framför og að raunhæft sé að áframhaldandi árangur náist. Að öðrum kosti skal virkri endurhæfingu hætt en við gæti tekið eðlilegt viðhald á færni sem flokkast ekki undir endurhæfingu.“

Um þetta mál er ágreiningur. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að sá ágreiningur verður ekki leystur hér í þingsal. Sennilega mun hann enda fyrir dómstólum og verða úrskurðað um það á hvern veginn skuli greitt. Þennan ágreining þarf hins vegar að leysa til framtíðar (Forseti hringir.) og semja um fyrirkomulag sem ekki veldur deilum.