135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[15:57]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það mál sem við ræðum hér er vissulega á viðkvæmu stigi og því eðlilegt að hæstv. ráðherra geti ekki úttalað sig um það hér og nú, en við þingmenn tökum að sjálfsögðu ríkisendurskoðanda mjög alvarlega og menn þurfa að hafa það álit til hliðsjónar. Hér er um að ræða eftirlitsstofnun þingsins sem hefur gert úttekt á þessari starfsemi og þeim vinnubrögðum sem tengjast skráningu vegna þessara verka. Ég vonast til þess að menn leysi af hendi með farsælum hætti þá vinnu sem hæstv. ráðherra er að beita sér fyrir í samstarfi við og þá gagnvart þeim aðilum sem veita þessa þjónustu.

Ég hrekk hins vegar ekkert af hjörunum, hæstv. forseti, þegar við ræðum um mismunandi rekstrarform í heilbrigðisþjónustu eða annarri þjónustu. Menn hafa vissulega vitnað til Sóltúnsheimilisins og heilsugæslustöðvar í Grafarvogi. Ég vil fagna því að við höfum mjög skýr viðmið um það hvað einkarekstur á þessu sviði kostar og hvað opinber rekstur kostar. Það er mjög gott fyrir okkur þingmenn og framkvæmdarvaldið að hafa einhver viðmið í þeim efnum en þeir samningar sem gerðir voru á sínum tíma voru að sjálfsögðu ekki ávísun á það að menn ætluðu að feta sig eingöngu í einkarekstursátt heldur finnst mér mjög gott að við skulum hafa viðmið ólíkra rekstrarforma þannig að aðhaldið komi úr ýmsum áttum í þessum málum.

Mér finnst líka mikilvægt, hæstv. forseti, í þessari umræðu að menn kasti ekki rýrð á það góða starf sem fer fram innan veggja Sóltúnsheimilisins. Farið hefur verið fögrum orðum um það hér að aðbúnaður þar er góður, góður rómur er gerður að þeirri starfsemi sem þar fer fram og ég er sem framsóknarmaður stoltur af að hafa staðið að því að koma Sóltúnsheimilinu á laggirnar. Við höfum þar af leiðandi viðmið um það hvað annars vegar einkarekstur kostar og hins vegar opinber rekstur í heilbrigðisþjónustu. En að ætla að leggja það út að Framsóknarflokkurinn hafi ætlað að gera einkarekstur að (Forseti hringir.) einhverri reglu í íslensku heilbrigðiskerfi er af og frá, hæstv. forseti. Hins vegar er hér um mjög gott viðmið að ræða.