135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[16:01]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í þeirri umræðu sem farið hefur fram.

Sú staða sem málið er í núna er sannarlega viðkvæm, en ég tel mikilvægt að við lærum af þeim samningi sem gerður hefur verið. Þetta er sá fyrsti af sinni tegund og það er greinilegt, bæði af umsögn ríkisendurskoðanda og bréfum frá heilbrigðisráðuneytinu, að menn telja að Sóltún hafi fengið greiðslur umfram tilskilinn samning.

Þegar við berum saman mismunandi rekstrarform tel ég að mjög mikilvægt sé — af því að hæstv. ráðherra talaði um trúarbrögð varðandi rekstrarform — að hæstv. ríkisstjórn fari þá ekki blint fram með einhvern ásetning um aukinn einkarekstur, ef það sýnir sig á þessu dæmi að þetta fyrsta óskabarn fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar og sem fyrirmynd þeirra sem koma skulu sé þá miklu dýrara en hjá öðrum samsvarandi stofnunum.

Hæstv. forseti. Ég tel að það hefði aldrei átt að greiða þessa fram komnu kröfu þar sem forsendurnar voru mjög veikar. Ég tel að það alversta í stöðunni sé að skoða málið, gera ekkert og vísa því inn í framtíðina. Það verður að ljúka þessu máli, það verður að styrkja þá eftirlitsaðila sem eiga að sjá um málið. Ríkisendurskoðun hefur haft það til meðferðar og ríkisendurskoðandi á að hafa málið til skoðunar þar til það er til lykta leitt. Það á að hafa allt uppi á borðinu, skoða alla þætti þannig að þetta rekstrarform sé samanburðarhæft við annað eins og hjá sjálfseignarstofnunum sem krefjast ekki arðsemi (Forseti hringir.) af rekstri sínum heldur láta afgang, ef einhver verður, renna til uppbyggingar starfseminnar. Það er mikill munur þar á.