135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:20]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi breytingartillögur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þá er það mat okkar, að minnsta kosti mitt, að þær séu almennt ekki nógu vel ígrundaðar. Það er alveg ljóst að þær komu fram í dálitlu snatri, eins og hv. þingmaður sagði sjálf í umræðum þegar ég gagnrýndi t.d. 3. lið þessara tillagna. Hv. þingmaður sagði sjálf að hún hefði haft lítinn tíma til að vinna þær og nefndi að hún ætlaði að prenta þær upp og fara betur yfir þær.

Virðulegi forseti. Það eru aðrir þættir líka sem ég vil nefna og það er góður hugur að baki mörgum þeirra — og ég heyri að hv. þingmaður fer nú að ókyrrast — en það er góður hugur að baki mörgum þeirra. Ég get verið sammála því sem býr að baki þeim en ég held að við verðum að skoða þær miklu betur.

Það má líka nefna tillöguna um gjaldfrelsi í leikskólum en við í Samfylkingunni höfum verið fylgjandi því. Engu að síður getur maður ekki komið með lögboð með þessum hætti frá þinginu eins og hv. þm. leggur til heldur verður að gera það í samkomulagi við sveitarfélögin (Forseti hringir.) og skoða sömuleiðis tekjuhliðarnar hvað það varðar. (Forseti hringir.) En það býr góður hugur að baki flestum þessara tillagna. (ÖJ: Bestu mannréttindi.)