135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[16:57]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um grunnskóla. Það sama gildir um það og frumvarpið um leikskólana, að gríðarlega mikil vinna hefur verið lögð í þetta frumvarp. Menntamálanefnd leggur til breytingartillögur í 29 liðum. Ég hygg að fjöldi tillagnanna og efni þeirra sýni að nefndin lagði sig alla fram um að reyna að koma til móts við sem flest sjónarmið sem fram komu við vinnslu málsins í nefndinni. Í það heila náðist góð sátt milli nefndarmanna sem skila sameiginlegu nefndaráliti þó að auðvitað sé ákveðinn áherslumunur varðandi einstök álitaefni.

Ég vil eins og áðan þakka nefndarmönnum gott samstarf og vonast til að þær breytingartillögur sem nefndin leggur sameiginlega fram, og fela í sér miklar réttarbætur á þessu sviði, verði samþykktar.