135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[17:03]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér á sér stað, og átti sér einnig stað varðandi atkvæðagreiðslu um frumvarp til laga um leikskóla, vil ég benda hv. þingmönnum á að meiri hluti menntamálanefndar leggur til að 2. málsliður 1. mgr. hljóðist svo:

„Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“

Þeir sem lesa þetta ákvæði með opin augun sjá hvers konar virðingu við sem að þessu ákvæði stöndum berum fyrir mannréttindunum. Í því felst ekkert annað en mikil virðing fyrir mannréttindum og efnisatriði ákvæðisins bera það með sér. Ávirðingar á þá sem ekki styðja þá tillögu sem hér eru greidd atkvæði um eiga ekki rétt á sér og eru ósanngjarnar.