135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[17:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er gert ráð fyrir því að 2. mgr. greinarinnar falli brott, þ.e. sú grein sem segir frá því að nemendafélag skuli fá árlega starfsáætlun skóla til umsagnar og aðrar áætlanir er varði skólahaldið. Jafnframt að nemendafélag skuli fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun er um það tekin.

Nú höfum við gert þær breytingar að við höfum gefið nemendum fulltrúa inni í skólaráðinu þannig að auðvitað fá nemendafulltrúarnir málið til umfjöllunar og skoðunar þar. En ég tel engu að síður misráðið að fella þessa málsgrein út úr 10. gr. Ég teldi það þroska lýðræðisvitund nemenda að senda nemendafélögunum sérstaklega starfsáætlun skóla til umsagnar ásamt með þeim breytingum sem væru fyrirhugaðar á skólastarfinu til að það verði sjálfstæð gjörð nemendafélaganna að fjalla um þá þætti.