135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[17:16]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um rétt foreldra þeirra skólabarna sem hafa annað móðurmál en íslensku og rétt heyrnarlausra foreldra. Samkvæmt frumvarpinu á þeim foreldrum að vera greint frá möguleikum á túlkaþjónustu sem er allsendis ófullnægjandi. Breytingartillaga meiri hlutans gengur að mínu mati ekki nægilega langt en hún gerir ráð fyrir að greina eigi þessum foreldrum frá rétti þeirra til túlkaþjónustu. En tillagan sem við greiðum nú atkvæði um, sem er tillaga mín, er sú að þeim foreldrum verði tryggður viðeigandi réttur til túlkaþjónustu. Það er þyngra en tárum taki að fólk skuli ekki geta verið samtaka um það að leiðrétta svona atriði sem horfa til mannréttinda þeirra foreldra sem tala ekki íslensku eða hafa táknmál að móðurmáli. Ég segi já.