135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:45]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn óskuðum eftir því að um þetta mál færi fram tvöföld umræða og fengum því framgengt. Það fór fram ágætisumræða. Við hörmum aftur á móti mjög að það skuli eiga að keyra þetta mál í gegn og ég vísa til opins bréfs frá Félagi framhaldsskólakennara þar sem þeir leggja fast að þingmönnum að bíða með að samþykkja ný lög um framhaldsskóla.

Það er ýmislegt athugavert við þetta frumvarp og það hefði þurft að ræða þessi mál betur. Það er miklu betra að afgreiða svona stórt mál frá þinginu í sátt og samlyndi við alla þá sem eiga og þurfa að vinna eftir þessum stóru og viðamiklu lögum. Við framsóknarmenn krefjumst þess að frumvarpinu verði vísað frá.