135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þegar heildarsamtök kennara og menntamálaráðherra gerðu með sér samkomulag, svokallað tíu punkta samkomulag, var lagt upp með að reyna að ná sem breiðastri og bestri samstöðu milli skólasamfélagsins og stjórnvalda um þróun skólastarfs í landinu. Það hefur gengið ágætlega að því er varðar önnur skólastig en framhaldsskólann sem hér kemur nú til atkvæðagreiðslu. Ég tel að það sé dapurlegt að ekki skuli vera reynt til þrautar að ná samstöðu við samtök kennara sem hafa eins og hér hefur þegar komið fram óskað eftir því að þetta mál verði látið bíða og unnið frekar í sumar til að sem mest sátt geti tekist um það. Það verður skólastarfi í framhaldsskólanum, þessu mikilvæga skólastigi, ekki til framdráttar að frumvarp til laga sé afgreitt í andstöðu og ósætti við þá sem eiga að inna starfið af hendi í framhaldsskólum landsins.