135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:47]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vegna umræðu fyrr í dag um að tillögur væru ekki unnar af mikilli vandvirkni hjá stjórnarandstöðu, eins kom fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, þá vil ég koma því á framfæri að það liggur alveg fyrir að vinna bak við þetta frumvarp er ekki með fullnægjandi hætti. Það eru margir góðir kaflar í þessum texta en það er líka margt varðandi samráð við hagsmunaaðila sem ekki hefur verið unnið til fulls. Það er það sem við heyrum alls staðar úti í samfélaginu frá kennarasamfélaginu. Þess vegna legg ég til að þetta mál verði lagt til hliðar til haustsins enda er ekkert sem kallar á að það sé afgreitt með þeim flýti sem hér er lagt upp af hinum stóra stjórnarmeirihluta. Hann hefur svo sem ekki sýnt það heldur að hann sé mjög sveigjanlegur gagnvart stjórnarandstöðu, jafnvel þegar fram koma tillögur sem hann er efnislega sammála eins og fram kom fyrr í dag hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur varðandi tillögu um mannréttindaákvæði. Samt sem áður var sú tillaga felld. (Forseti hringir.) Nú er ætlast til að stjórnarminnihlutinn (Forseti hringir.) láti þetta mál yfir sig ganga.