135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um tillögu frá minni hluta menntamálanefndar um rökstudda dagskrá, þ.e. að þessu máli verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá. Því hefur verið haldið fram af formanni menntamálanefndar að það sé ómögulegt að skilja þetta eina frumvarp frá hinum frumvörpunum er varðar menntamálin. Það hafa hins vegar engin rök verið lögð fram í umræðunni um það hvers vegna ekki er hægt að skilja það mál sem allt framhaldsskólastigið meira eða minna er á móti, frá hinum þremur málunum sem er tiltölulega góð sátt um. Mér segir svo hugur að hér liggi meira að baki en hefur verið sagt. Ég treysti því að hv. þingmenn átti sig á því að ófriðurinn hér í salnum á eftir að yfirfærast, hann á eftir að færast út í samfélagið til þeirra sem vinna gott verk í framhaldsskólum landsins, (Forseti hringir.) til kennara og nemenda. Ég legg til að þessu máli verði vísað frá. Ég segi já.