135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:01]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í nokkrum orðum fara yfir þetta stóra mál sem í meginatriðum fjallar um meðferð orkuauðlinda í opinberri eigu og rekstrartillögur orkufyrirtækja. Málið kom snemma til þings og hefur fengið mikla umfjöllun í hv. iðnaðarnefnd, bæði hafa verið haldnir þar margir fundir um málið og margir verið kallaðir til, margir gefið umsögn um málið o.s.frv. enda er þetta gríðarlega mikilvægt mál. Þegar hæstv. iðnaðarráðherra flutti málið fór ég yfir viðhorf okkar framsóknarmanna sem voru fremur jákvæð í garð málsins strax í upphafi, enda þekkjum við það úr störfum okkar í ríkisstjórn og í þinginu á síðustu árum. Við álítum að þetta sé mikilvægt mál.

Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og hef auðvitað athugasemdir við ýmsa liði en eitt stærsta atriðið var kannski áhyggjur sveitarfélaganna. En það kom mér á óvart þegar við fórum að vinna málið í nefndinni og Samband íslenskra sveitarfélaga kom til fundar við okkur að þá hafði iðnaðarráðuneytið og hæstv. iðnaðarráðherra ekki sýnt á spilin og ekki haft neitt samráð við sveitarfélögin við undirbúning málsins. Kom sú óánægja og þær áhyggjur sem ríktu á þeim bæ talsvert á óvart þó að auðvitað skuli það tekið fram hæstv. iðnaðarráðherra til huggunar að umsagnir frá ýmsum sveitarfélögum eru eigi að síður alljákvæðar og mjög jákvæðar. (Gripið fram í.) Já, mörg sveitarfélög taka undir efni þessa frumvarps og raunar öll sem taka kannski undir efni þess en þarna er auðvitað um að ræða fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna sem eru þeim mjög kær og heilög, orkuveiturnar, og verkefni sem sveitarfélögin hafa verið að vinna.

Samband íslenskra sveitarfélaga hafði sérstakar áhyggjur af því að þessi uppskipti mundu snerta stjórnarskrá og yrðu mjög erfið í framkvæmd og töldu í rauninni að hér gæti verið um að ræða mikið skaðabótamál fyrir ríkisvaldið. Ég hvatti auðvitað til þess í nefndinni og ræddi það við fulltrúa iðnaðarráðuneytisins, sem funduðu með nefndinni, hvort ekki væri hægt að reyna að nálgast sveitarfélögin á ný eða Samband íslenskra sveitarfélaga og fara yfir málið nánar á þeim vettvangi. Hygg ég að það hafi ekki verið gert þó að hér séu álit frá mætum prófessorum sem halda því fram að þetta snerti ekki stjórnarskrá og verði ekki skaðabótamál. Mér finnst þessi vinnubrögð ekki verjandi og ég hefði talið mjög mikilvægt að í öllum svona stórum málum þegar verið er að fara inn á verkefni sveitarfélaganna og setja löggjöf um stór verkefni sem snerta þessi miklu fyrirtæki sveitarfélaganna, væri miklu nánara samstarf af hálfu ráðuneytisins. Ég undra mig auðvitað á þeim vinnubrögðum, hæstv. forseti, í fyrsta lagi að þetta skyldi ekki gert í upphafi og í öðru lagi að einhvern tíma á vetrinum skyldi ekki á ný leitað eftir því að ná meiri samstöðu með Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem Alþingi virðir mjög. En það er önnur saga. Ráðuneytið varð ekki við því en ég viðurkenni að formaður nefndarinnar kallaði fyrir mjög marga aðila og þar á meðal Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri og fleiri og flestir sem höfðu skoðanir á þessu frumvarpi fengu að fjalla um þær í nefndinni og það er mikilvægt.

Hæstv. forseti. Hér er auðvitað um aðskilnaðarfrumvarp að ræða á samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi í rekstri orkufyrirtækja. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til að gerð verði krafa um að sérleyfis- og samkeppnishættir skuli reknir í aðskildum fyrirtækjum. Er þessi stefna mörkuð til að tryggja jafnan aðgang framleiðenda að flutnings- og dreifikerfum raforku og koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem kunna að leiða af því að sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi er rekin innan veggja sömu fyrirtækja. Er þó miðað við að ákvæði þessi verði ekki látin ná til minnstu orkufyrirtækjanna og eru mörkin sett við árlegar rekstrartekjur sem eru 2 milljarðar kr. eða minni en þar er litið til kostnaðar sem fylgir slíkum aðskilnaði og uppskiptingu fyrirtækjanna. Í meðförum iðnaðarnefndar við frumvarpið er lagt til að fellt verði á brott ákvæði í 2. gr. frumvarpsins um að handhafa virkjunarleyfis, með árlegar rekstrartekjur umfram 2 milljarða kr., sé óheimilt að stunda sérleyfisstarfsemi á orkusviði. Lagt er til að fellt verði á brott ákvæði í 6. gr. frumvarpsins um að handhafa raforkuviðskiptaleyfis, með árlegar rekstrartekjur umfram 2 milljarða kr., sé óheimilt að stunda sérleyfisstarfsemi á orkusviði. Lagt er til að orðalagi 5. gr. frumvarpsins um að dreifiveitu, með árlegar rekstrartekjur umfram 2 milljarða kr., sé óheimilt að stunda aðra starfsemi, verði breytt og þess í stað verði miðað við fjölda íbúa á dreifiveitusvæðum sem eru yfir 10 þúsund manns. Lagt er til í 11. gr. að fellt sé á brott ákvæði um að hitaveitu, með rekstrartekjur umfram 2 milljarða kr. á ári, sé óheimilt að stunda aðra starfsemi á orkusviði. Þess í stað er öllum hitaveitum sem stunda starfsemi á grundvelli einkaleyfis óheimilt að stunda aðra starfsemi á orkusviði. Ákvæðin sem voru í frumvarpinu sjálfu voru í samræmi við vilja okkar framsóknarmanna sem við sýndum í verki á Alþingi þegar Finnur Ingólfsson, þáverandi iðnaðarráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu á 122. löggjafarþingi og síðan með frumvarpi raforkulaga sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, lagði fram á 126. löggjafarþingi. Hvorugt þessara mála náði fram að ganga, m.a. var andstaða við þessi atriði frá ýmsum aðilum úr orkugeiranum og víðar á þeim tíma. Í frumvarpinu, sem varð síðar að raforkulögum 2003, var hins vegar kveðið á um bókhaldslegan aðskilnað sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi. Er það í samræmi við raforkutilskipun sem þá var við lýði hjá Evrópusambandinu. Í breytingartillögum meiri hluta iðnaðarnefndar er að mestu horfið frá aðskilnaði sérleyfis- og samkeppnisþátta orkufyrirtækja en bókhaldslegi aðskilnaðurinn áfram látinn duga nema varðandi dreifiveiturnar. Vona ég auðvitað að það gagnist vel í þessu og geri ekki miklar athugasemdir við það.

Farið var yfir marga þætti í þessu máli. Í frumvarpinu var lagt til að í lögum verði kveðið á um að ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, verði óheimilt að framselja varanlega beint eða óbeint og með varanlegum hætti vatns- og jarðhitaréttindi. Hins vegar verði hægt að veita tímabundinn afnotarétt til allt að 65 ára í senn. Um þetta var mikið rætt í starfi nefndarinnar. Það segir að undanþága frá þessu sé framsal frá ríki og/eða sveitarfélögum til félaga í þeirra eigu sem sérstaklega eru stofnuð til að fara með eignarhald þessara réttinda. Í meðförum iðnaðarnefndar við frumvarpið er bætt við efnisgrein sem kveður á um að handhafi tímabundins afnotaréttar skuli eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn. Þarna er um ágætt mál að ræða en það má deila á þetta með sama hætti og oft hefur verið deilt á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem kveður á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar.

Í þessu samhengi er rétt er að benda á stjórnarskrárfrumvarpið sem við framsóknarmenn höfum lagt fram, sem er bæði í samræmi við stefnu framsóknarmanna og niðurstöðu auðlindanefndar sem skilaði niðurstöðum árið 2000. Þar er gert er ráð fyrir að náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, séu þjóðareign eftir því sem nánar sé ákveðið í lögum og að ríkið fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. Þær má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila en veita má heimild til afnota eða nýtingar tímabundið og gegn gjaldi. Slík heimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi. Þetta frumvarp telja framsögumenn vera lykilforsendu þess að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum hennar. Það er ljóst að við höfum ekki enn fengið tíma á þessu þingi til að tala fyrir okkar stóra máli en vonandi gerum við það strax á nýju haustþingi þegar það kemur saman.

Ljóst er að skortur á ákvæði um þjóðareign á nytjastofnum á fiskimiðum á veigamikinn þátt í þeim deilum sem orðið hafa um stjórn fiskveiða og kvótakerfið enda er það ekki talið nægjanlega traust lagastoð að setja slíkar heimildir inn í almenn lög eftir á. Stjórnarskrárákvæði tekur af allan vafa um eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum og ætti slíkt ákvæði alltaf að liggja fyrir áður en menn setja það inn í almenn lög.

Varðandi ákvæði um lágmarkseign annarra opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaga, á auðlindum sem þegar eru í þeirra eign þá á ekki að vera erfitt að setja slík ákvæði í stjórnarskrá og er þar um réttari aðferð að ræða að mínu mati. Við eigum að opna á að gerðar verði breytingar í þessa veru í stjórnarskrárfrumvarpi okkar framsóknarmanna. Það er enda ekki mikið hald í slíku ákvæði í sérlögum af þessu tagi, því að frá þeim má víkja með sérstökum lögum hverju sinni ef Alþingi kýs svo, segja mér færustu prófessorar.

Í frumvarpinu er heimild til að veita tímabundinn afnotarétt að auðlindanýtingu til allt að 65 ára eins og ég sagði. Varðandi ákvæðið um 65 ára regluna þá er þar um afar langan tíma að ræða að mínu mati og það kom fram í störfum nefndarinnar þó að ýmsir vildu kannski hafa það allt upp í 99 ár. Til að mynda er yfirleitt miðað við 30–50 ár í afskriftatíma virkjana. Það má því segja að þetta jafngildi nánast ótímabundnu leyfi. Það er langur tími og við sjáum að 65 ár er langur tími á ævinni. Hér er lagt til að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd til að fjalla um endurgjald fyrir afnotarétt í eigu ríkisins en forsætisráðherra fer þegar með það umboð varðandi nýtingu réttinda í þjóðlendum. Skal nefndin einnig huga að því með hvaða hætti verði valið á milli þeirra sem áhuga hafa á að nýta auðlindirnar. Nefndin skal skila tillögum sínum fyrir 1. mars 2009. Um þetta er það að segja að í frumvarpi Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi iðnaðarráðherra, um breytingu á lögum nr. 55/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum, er kveðið á um með skýrum hætti hvernig valið verði á milli þeirra sem áhuga hafa á að nýta auðlindir. Þarna er því um tvíverknað að ræða, enda kom mér vitanlega ekki fram í umræðum um frumvarpið í fyrra nein gagnrýni á þessa útfærslu. Enda hafði náðst þverpólitísk sátt um þær tillögur í nefnd iðnaðarráðherra sem skipuð var í apríl 2006 og skilaði af sér viðamikilli skýrslu í október sama ár. Ég vil halda þessu til haga hér. Fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi verða áfram í félagslegri meirihlutaeign.

Þá er lagt til að kveðið verði á um að fyrirtæki sem reka starfsemi á orkusviði sem byggir á sérleyfum, þ.e. með raforkuflutning, raforkudreifingu og rekstur hitaveitu, skuli a.m.k. vera að tveim þriðju hlutum í eigu opinberra aðila. Í meðförum iðnaðarnefndar við frumvarpið er lagt til að þetta hlutfall verði lækkað og látið verði nægja að opinberir aðilar eigi meiri hluta í fyrirtækjum af þessu tagi eða 51%. Hlutfallið tveir þriðju var í samræmi við ákvörðun um sölu hlutar í Hitaveitu Suðurnesja og í ágætu samræmi við almenna reglu í hlutafélagalögunum. Eins og menn muna gagnrýndi stjórnarandstaðan á fyrra kjörtímabili þessa sölu og Samfylkingin notaði það grimmt gegn okkur framsóknarmönnum eftir að hún komst í ríkisstjórn að við hefðum með sölu þessari skaðað umhverfi orkumála. Hæstv. núverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, talaði um að moka flórinn eftir Framsóknarflokkinn og hafði um þetta stór orð, ef ég man rétt. Þetta er sá sami ráðherra sem lagði fram frumvarpið með tveim þriðju eignarhlutfall opinberra aðila og sá sami ráðherra sem virðist nú hafa gengið lengra og tekur í höndina á Sjálfstæðisflokknum og lækkar nú þetta hlutfall niður í 51%. Öllu lengra er ekki hægt að ganga í að draga úr yfirráðum og áhrifum opinberra aðila yfir orkufyrirtækjum í sérleyfisstarfsemi nema selja þau að fullu. Þarna er heilmikill viðsnúningur og breyting.

Með sölunni á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja eignaðist einkaaðili að vísu fyrir rest tæpan þriðjung í hitaveitunni og þar með væntanlega í auðlindum sem Hitaveita Suðurnesja á. Það breytir því ekki að sala á rúmlega 15% eignarhlut til einkaaðila hnekkir alls ekki eða raskar á nokkurn hátt samfélagslegu forræði yfir þessari eign sem er að tæplega 85% hluta í eigu sveitarfélaga suður frá. Þar kom sala annarra aðila til. Stjórnvöld höfðu reiknað með því að sveitarstjórnin nýtti forkaupsrétt að 15% hlutum enda var ríkisstjórninni sá vandi á höndum að vegna samkeppnisástæðna var ekki talið heppilegt að selja eignarhlutinn öðrum ríkisstofnunum eða ríkisfyrirtækjum eða ráðandi fyrirtækjum á þessum markaði, svo sem Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kom í kjölfarið á því að ríkið eignaðist Landsvirkjun að fullu eins og menn muna.

Hæstv. forseti. Nú má spyrja hvað þessi lagaákvæði þýða fyrir heimild í fjárlögum um sölu á 20,7% hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar en þar á Orkuveita Reykjavíkur á móti um 79,3% hlut. Ef til sölu kæmi og ef Orkuveitan vildi líka nýta sér heimild til sölu á þessum tæpa helmingseignarhlut mættu þessir tveir aðilar þó bara selja hlutfallslega í samræmi við eignarhlutinn. Þýðir það þá í raun og veru að ríkið sæti uppi með það að eiga alltaf örlítinn óvirkan eignarhlut í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar? Það er auðvitað prýðileg eign og í sjálfu sér ekkert við það að athuga.

Ég hef farið yfir nokkur atriði sem mér eru ofarlega í huga eftir hið mikla starf sem fram fór í nefndinni og ég vil þakka fyrir það starf. Það má segja að þetta frumvarp hafi nánast yfirtekið allan síðari hluta vetrarins hjá nefndinni og verið mikið starf og hér er það komið fram fullbúið með breytingartillögum. Eins og ég sagði í upphafi skrifa ég undir málið með fyrirvara en hugur okkar framsóknarmanna í garð þessa máls er fremur jákvæður, við munum fylgja málinu í meginatriðum við atkvæðagreiðsluna og gera grein fyrir afstöðu okkar til málsins og athugasemdum sem ég hef fram að færa eins og ég hef rakið í ræðu minni.