135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:24]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég haldi áfram þar sem frá var horfið þá tókum við einnig tillit til athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað varðar tekjuviðmið, að það verði notað til undanþágu fyrir minni aðila. Þeir eru þá undanþegnir því að þurfa að skipta fyrirtækinu upp í samkeppnis- og sérleyfisrekstur. Við hlýddum á þá athugasemd að það væri óskýrð leið og skýrðum hana með nýrri leið eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Þetta var jafnframt ein af athugasemdum sveitarfélaganna sem við tókum tillit til.

Í greinargerð þeirra eru hins vegar atriði sem ég tel að hefðu gengið gegn markmiðum frumvarpsins. Í kafla sem heitir Skerðing á eignarréttarverðmætum segja þeir að í þeim frumvarpsákvæðum felist augljós skerðing á eignarréttindum sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu þar sem ekki verði unnt að ráðstafa eignarhlut sveitarfélaga á almennum markaði eða t.d. breyta fyrirtækjum sveitarfélaga í almenningshlutafélög. Þessu vorum við hreinlega ekki sammála í athugasemdum sveitarfélaganna. Við vorum heldur ekki sammála þeirri tillögu sveitarfélaganna að í stað 65 ára afnotaréttar ætti að vera 99 ára afnotaréttur. Við tókum tillit til sumra þátta en töldum að aðrir gengju gegn markmiðum frumvarpsins og úr því varð ekkert. Ég tel því að við höfum gengið býsna langt í því að mæta sveitarfélögunum og athugasemdum þeirra.

Varðandi stjórnarskrána og rannsókn á því máli kom fram í upphafi mjög ítarlegt álit frá Eiríki Tómassyni lagaprófessor. Við fengum fyrir nefndina virta lagaprófessora aðra, Sigurð Líndal og Karl Axelsson, sem blessuðu það álit eða tóku undir það í megindráttum og við töldum það nægja. Því telur meiri hlutinn að í öllum megindráttum hafi verið gengið úr skugga um að hvorki væri um bótaskyldu að ræða né brytu þessi ákvæði frumvarpsins í bága við stjórnarskrána.