135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:31]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðjast forláts. Það hafði farið fram hjá mér að hv. þingmaður hafi fjallað um 4. gr. í ræðu sinni. Ég taldi hann vera að tala um dreifiveiturnar og hitaveiturnar. En ég skil hans orð svo að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til þess að selja þriðjung af Landsneti til einkaaðila.

Ég verð að segja, herra forseti, að það undrar mig stórlega að svo sé. Það undrar mig stórlega. Það er upplýst að 4. gr. er víðtækari að mati ráðuneytisins heldur en XII. bráðabirgðaákvæðið í raforkulögunum með því að hún tekur bæði til eigendanna að flutningsfyrirtækinu og með því að hún tekur einnig til þess hver eignarhlutinn má vera að lágmarki.

Með tilliti til þess hvernig rekstur raforkuflutningsfyrirtækja þar sem markaðurinn er hvað frjálsastur með þetta, eins og í Kaliforníu og Bretlandi með tilliti til þess hvernig það hefur verið, þá verð ég að segja að ég tel að þetta sé eitt af verstu ákvæðum frumvarpsins. Ég tel í rauninni alveg fráleitt að við göngum til þess að skipta upp Landsneti og falbjóða 41% eða 33,3%. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því.