135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:33]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við höfum í dag verið að ræða mjög mikilvægt frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Í frumvarpinu er tekið á mörgum atriðum sem við koma orkumálum landsins. Má þar m.a. nefna hvernig eignarhald orkuauðlinda skuli vera í framtíðinni, fyrirkomulag dreifiveitna auk þess sem settar eru skýrar reglur um fjölmörg atriði sem varða rekstur orkufyrirtækja.

Eins og fram kom í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar hefur fyrir nefndina komið fjöldi aðila sem þekkingu hafa á orku- og auðlindamálum út frá hinum ýmsu sjónarhornum og nefndin lagði áherslu á að draga fram sem skýrasta mynd af málinu á milli 1. og 2. umr. frumvarpsins. Mörg og margvísleg sjónarmið hafa komið fram sem nefndin hefur tekið afstöðu til. Eftir svo miklar umræður um frumvarpið var tillit tekið til nokkurra sjónarmiða sem fram komu hjá umsagnar- og álitsgjöfum eins og sést á þeim breytingum sem lagðar eru til á frumvarpinu eftir meðferð nefndarinnar á milli umræðna.

Ég mun ekki fjalla um allar þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu en vil þó segja að ég tel að þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til að gerðar verði séu til bóta.

Í frumvarpinu er gerð krafa um fullan aðskilnað einkaleyfis og samkeppnisþátta. Ekki er nægilegur bókhaldslegur aðskilnaður fyrirtækja heldur er gerð krafa um fyrirtækjaaðskilnað sem mun óhjákvæmilega leiða til aukins kostnaðar fyrir orkufyrirtæki að ganga í.

Á fundum nefndarinnar kom fram að mjög mörg orkufyrirtæki hafa nú þegar gengið þessa leið í rekstri sínum. Þau fyrirtæki sem hafa nú þegar farið þá leið töldu það m.a. hagkvæmt af samkeppnisástæðum. Skoðanir voru þó skiptar meðal umsagnar- og álitsgjafa um þetta mál, m.a. eins og áður segir vegna þess augljósa kostnaðar sem skiptingunni fylgir.

Hitaveita Suðurnesja hf. sem er það fyrirtæki sem einkaaðilar koma að rekstrinum hefur ekki skipt starfsemi sinni upp með þessum hætti. Í umsögn til iðnaðarnefndar komu þær athugasemdir að óhjákvæmilega mun skiptingin geta þýtt kostnaðarauka en jafnframt er tekið undir þau sjónarmið að uppskipting hljóti að koma í veg fyrir samkeppnishindranir.

Mjög margir álitsgjafar sem fyrir nefndina komu töldu að aukinn meiri hluti hins opinbera í dreifiveitum væri óþarfur. Töldu þeir að hagsmunir hins opinbera væru vel tryggðir með einföldum meiri hluta. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, og er það að mínu mati eðlilegt, að samræma þetta við ákvæði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga þar sem algengt er að vatnsveitur sveitarfélaga séu reknar í sama dreififyrirtæki. Með því móti er mögulegt að fá nýja eignaraðila inn í fyrirtækin með fjármagn eða sérþekkingu sem nauðsynleg er.

Virðulegi forseti. Ég vil fjalla í nokkrum orðum um Hitaveitu Suðurnesja hf. sem hefur verið mikið í umræðunni á síðasta ári vegna aðkomu einkaaðila að rekstri fyrirtækisins og umbrota í tengslum við aðild Orkuveitu Reykjavíkur að fyrirtækinu. Ýmsir hafa haft af þeirri aðkomu einkaaðila þungar áhyggjur þótt mér sýnist þáttur Orkuveitunnar töluvert áhyggjuefni. Nú er hins vegar að koma á daginn að áhyggjur af aðild einkaaðila að rekstrinum, sérstaklega vegna sjónarmiða um auðlindir í almannaeigu, hafa verið ástæðulausar miðað við viðbrögð stærstu eigenda Hitaveitu Suðurnesja hvað varðar afstöðu fyrirtækisins til frumvarpsins sem hér um ræðir.

Á fund iðnaðarnefndar kom formaður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja, Árni Sigfússon, ásamt Júlíusi Jónssyni, forstjóra fyrirtækisins. Formaðurinn lagði fram fyrir nefndina umsögn formanns og varaformanns stjórnar Hitaveitunnar en þeir eru jafnframt fulltrúar stærstu eigenda í Hitaveitu Suðurnesja. Varaformaður stjórnar er Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri Geysis Green Energy.

Á fundinum og í umsögnum kom m.a. fram að stærstu eigendur í Hitaveitu Suðurnesja hf. skilja að miklir þjóðhagslegir og samfélagslegir hagsmunir tengjast eignarhaldi og nýtingu orkuauðlinda landsins og því sé ríkur vilji til að þær verði áfram í samfélagslegri eigu. Þótt þetta ákvæði eigi ekki við um Hitaveitu Suðurnesja hafa núverandi eigendur sýnt þessu sjónarmiði fullan skilning.

Nú er unnið að samkomulagi um að a.m.k. Reykjanesbær eignist það land og jarðhitaréttindi sem nú eru í eigu Hitaveitu Suðurnesja. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, sem jafnframt er formaður stjórnar hitaveitunnar, hefur lýst því yfir að það sé vilji til að leitað verði til fleiri sveitarfélaga sem hagsmuna eiga að gæta um aðild að þessu verkefni. Með því móti fer land og jarðhitaréttindi Hitaveitu Suðurnesja í fulla eigu opinberra aðila. Með því móti er samstarf einkaaðila og opinberra aðila að leiða til niðurstöðu sem er svipuð niðurstöðu þessa lagafrumvarps þótt Hitaveita Suðurnesja sé í sjálfu sér undanskilin þeim ákvæðum en þau eru með þessu móti að eyða óvissu sem hefur ríkt um eignarhald á auðlindum í eigu Hitaveitu Suðurnesja.

Ég tel þetta vera fagnaðarefni enda er þá komið til móts við rík sjónarmið í samfélaginu um að auðlindir þjóðarinnar skuli vera í opinberri eigu og þeirra sjónarmiða sem einnig endurspegluðust í áliti fjölmargra íbúa á Suðurnesjum sem lögðu áherslu á að tryggja eignarhald vatns- og jarðhitaréttinda með þessu móti.

Hitaveita Suðurnesja er yfir 30 ára gamalt fyrirtæki sem hefur verið rekið á arðbæran hátt og hefur skilað miklum tekjum til samfélagsins. Hjá fyrirtækinu liggur jafnframt eftir svo langan tíma mikil þekking í þeim mannauði sem hefur starfað í fyrirtækinu í gegnum árin. Rétt er að benda á að hjá Hitaveitu Suðurnesja hf. hefur undir forustu aðstoðarforstjórans, Alberts Albertssonar, verið unnið gríðarmikið og mikilvægt frumkvöðlastarf á sviði jarðvarmavinnslu.

Ljóst er að sú þekking hefur skilað miklu til samfélagsins og mun án efa einnig nýtast í þeirri orkuútrás sem Geysir Green Energy hefur hafið og víkka það svið sem Hitaveita Suðurnesja starfar nú við. Í orðum og gerðum þessara nýju meðeigenda hefur komið skýrt fram að fyrirtækið verði í fremstu röð bæði hvað varðar rekstur og þekkingu. Það er hagur allra þeirra sem að fyrirtækinu koma, eigenda og starfsfólks, að aðlaga fyrirtækið sem best að þeim kröfum sem ríkisvaldið gerir til orkufyrirtækja í landinu.

Þá kom greinilega fram í umsögn formanns og varaformanns Hitaveitu Suðurnesja sú ósk að vinnu nefndarinnar við frumvarpið yrði flýtt sem kostur væri þannig að það gæti orðið að lögum í vor svo Hitaveita Suðurnesja hf. geti aðlagað sig að nýjum lögum.

Kallað er eftir skýrum reglum í starfsumhverfi orkufyrirtækjanna. Óvissan er hættuleg rekstri þeirra. Með skýrari lagagrundvelli er vonandi hægt að leysa úr öðrum ágreiningsmálum sem varða eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar að Hitaveitu Suðurnesja.

Þessi viðbrögð stærstu eigenda eru auðvitað mjög jákvæð og sérstakt er til þess að hugsa að ástæðuna fyrir frumvarpinu sem við fjöllum nú um má sennilega rekja til þess að einkaaðilar eignuðust hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem mörgum þótti ógnvænleg þróun sem best væri að mundi ekki endurtaka sig. En það hlýtur að teljast eðlilegt að það sem vakir fyrir eigendum Hitaveitu Suðurnesja er að fyrirtækinu séu skapaðar þær aðstæður að geta áfram vaxið og dafnað og skilað arði til eigenda sinna og samfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég tel að samstarfið í nefndinni hafi verið gott og að nefndarmenn hafi lagt sig mjög fram til að fá sem flest sjónarmið upp á borðið. Með þeim breytingum sem lagðar eru til er það von mín að nokkuð góð sátt sé um þetta stóra mál á orku- og auðlindasviði.