135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:13]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér áðan að það er töluverður skoðanaágreiningur uppi um grundvallaratriðin í þessu máli, þ.e. hversu langt inn í þennan markað ríkisvaldið á að teygja sig og þar er himinn og haf á milli aðila. Ég er þeirrar skoðunar að þetta frumvarp nái að brúa að verulegu leyti og ágætlega þau ólíku sjónarmið sem uppi eru og lengra verði ekki gengið að sinni.

Eins og fram kom í máli hv. formanns iðnaðarnefndar ályktaði Viðskiptaráð í dag gegn þessu frumvarpi og hvatti til frestunar m.a. vegna þess að menn telja og sjá ekki nauðsynina á því að takmarka eignarhald og framsal á orkuauðlindum og vatnsréttindum né heldur að setja takmörk á eignarhlut einkaaðila í dreifiveitum. Hér er verið að setja óumdeilanlega ákveðin bönd á eignarhald á auðlindinni og jafnframt er verið að slaka til varðandi þau fyrirtæki sem á þessum markaði starfa. Vissulega er verið að opna fyrir aðkomu einakaðila að því, þó með þeim takmörkunum sem hér um ræðir. Það hlýtur að vera hægt að ræða það líka hvort það geti ekki verið kostur fyrir þessi fyrirtæki að fá heimildir til þess að geta sótt sér fé og þekkingu frá einkaaðilum inn í starfsemi sína. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir að það megi koma frá öðrum aðilum en frá ríkissjóði eða sveitarsjóði.

Ég vil undirstrika það hér að óumdeilt er — og spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að hér sé verið að festa í sessi umfangsmikla aðkomu opinberra aðila að þeirri starfsemi sem (Forseti hringir.) þessi lög munu ná til.