135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt, kerfið hefur ekki skilað einhverri samkeppni enda var það aldrei raunhæft, það var aldrei í boði að mínu mati. Úr því að það gengur ekki betur en raun ber vitni að innleiða einhverja raunverulega samkeppni á hinum stóru samtengdu orkumörkuðum meginlandanna hvernig í ósköpunum ætti það þá að ganga hér?

Í sambandi við samkeppnina á hún þó alla vega ekki við t.d. í tilviki fyrirtækisins Landsnets. Það hefði verið fróðlegt að heyra hvað fyrrverandi stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir um það mál. Er hann sammála núverandi stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, að það sé mjög mikilvægt, afar brýnt, að fyrirtækið verði áfram alfarið í opinberri eigu? Eigum við þá ekki bara að athuga hvort það er kannski vilji Alþingis, meirihlutavilji hér, og ganga þá þannig frá málinu í lögum en ekki vera með einhvern hringlandahátt af þessu tagi að setja samt inn í lög, þó að einhvers staðar annars staðar standi eitthvað annað, að það megi einkavæða það að 49% eða allt að helmingi?

Ég held að það sé borin von að leiðin til betri þjónustu og lægra verðs, meira afhendingaröryggis o.s.frv. liggi í gegnum þessa svokölluðu markaðsvæðingu eða samkeppnisvæðingu orkugeirans. Það mun ekki skila sér, því munu bara fylgja kostnaður og vandræði. (Gripið fram í.) Aðalatriðið er í mínum huga að það á að nálgast þetta sem mikilvæga grunnþjónustu eins og var gert. Þá höfðu menn ekki af því stórar áhyggjur hvort menn væru að græða eða skila þessu á sléttu þegar í hlut áttu t.d. hitaveiturnar. Þannig var staðan að Hitaveita Reykjavíkur var, áður en hún rann saman við hitt batteríið og réðist í miklar fjárfestingar fyrir svona 10 til 15 árum, nánast alveg ótrúlega ríkt fyrirtæki. Hún átti nánast allar sínar eignir skuldlausar og skilaði Reykvíkingum mjög hagstæðum húshitunarkostnaði og góðri þjónustu. Var eitthvað að því og er eitthvað að því að nálgast (Forseti hringir.) þessa hluti þannig og gleðjast yfir því ef hægt er að gera það í öflugum opinberum þjónustufyrirtækjum eins og þá var gert?