135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:37]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að koma því á hreint í umræðunni vegna þess að hv. þingmaður eyddi drjúgum tíma í að lýsa því hvernig það hefði verið ásetningur okkar að litlu fyrirtækin mundu þurfa að skipta sér upp, þar með talin Rafveita Reyðarfjarðar þar sem mjög lítil starfsemi er, það hefði ekki verið hægt, bara fræðilega ekki hægt, þá stóð það ekki til.

Hins vegar lögðum við til að þetta 2 milljarða mark, það viðmið væri ónothæft. Það var niðurstaða okkar sem undanþágumark og undanþáguviðmið. Því var það tekið út en engu að síður var alltaf ætlunin að finna góða leið. Það var eingöngu verið að finna þá allra bestu á þeim tíma, á þeim örfáu dögum sem liðu á milli afgreiðslna á málinu. Það skal vera hér alveg á hreinu að það stóð alls ekki til nema síður sé.

Örstutt varðandi 8. gr. í raforkulögunum sem við erum að leggja til breytingu á í frumvarpi þessu, þ.e. í 4. gr., og hv. þingmaður hefur svo mjög gert að umtalsefni. Þar erum við að leggja til að sett verði inn takmörkun við mjög opna grein, takmörkun sem feli í sér að flutningsfyrirtækin skuli ávallt vera að lágmarki að tveimur þriðju hlutum í eigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Þarna erum við að bæta inn þeirri sömu takmörkun og við gerum á sérleyfisstarfsemi inn í þessa galopnu lagagrein eins og hún er í dag, en þar stendur eingöngu, með leyfi forseta:

„Eitt fyrirtæki skal annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Fyrirtækið skal vera hlutafélag. Ráðherra veitir flutningsfyrirtækinu rekstrarleyfi þar sem kveðið skal á um réttindi og skyldur þess. Heimilt er að kveða á um að leyfið skuli endurskoðað að tilteknum tíma liðnum, enda hafi forsendur fyrir skilyrðum þess breyst verulega.“

Það er því alveg klárt að þarna er verið að bæta inn takmörkun og það breytir í engu því sértæka ákvæði sem er (Forseti hringir.) í XII. bráðabirgðaákvæðinu í þeim sömu lögum. Ekki er verið að fella það brott. Þetta er klárlega takmörkun frá því sem er í dag, virðulegi forseti.