135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:41]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hér hefur verið sagt að ekki eigi að fella út bráðabirgðaákvæði XII í raforkulögunum og það er hvergi lagt til, vil ég spyrja hv. þingmann hvað það er í 8. gr. í dag sem við erum að leggja til breytingu á í 4. gr. í frumvarpinu sem komi í veg fyrir að Landsnet verði í framtíðinni í 100% eign einkaaðila þess vegna. Vegna þess að það er ekki neitt. Þess vegna erum við í samræmi við aðrar greinar, þar sem við erum að setja axlabönd við beltið til að tryggja þetta til framtíðar í meirihlutaeigu hins opinbera, að setja þessa grein inn til samræmis við aðra þætti í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Mér þykir mikilvægt að þetta komi fram en ég veit og hv. þingmaður hefur boðað það að hún telji að við þurfum að ræða þetta mál á milli 2. og 3. umr. og hefur farið fram á það og þykir mér það alveg sjálfsagt. Þar getum við farið enn betur yfir þetta atriði.

En ég spyr enn og aftur hv. þingmann að fari svona — eins og hún er að lýsa vegna þess að bæði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon sögðu áðan að kannski ætti ekki að gera ráð fyrir að þetta væri gert í einu vetfangi — að fari á versta veg miðað við óbreytta grein, eins og hv. þingmaður er að lýsa að geti gerst varðandi breytta grein, hvaða takmarkanir eru þá í 8. gr. fyrir því að þetta verði bara einhvern tímann í framtíðinni þegar verður komin ný stjórn sem hugsar öðruvísi, að þetta verði þá bara jafnvel í meirihlutaeigu einkaaðila? Er eitthvað í 8. gr. sem takmarkar það, virðulegi forseti? Ég verð að spyrja hv. þingmann að því.