135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:45]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum um hérna, breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, er í heildina tekið mjög þarft. Þrátt fyrir að ég hefði viljað sjá ýmsa þætti þessa máls betur unna tel ég samt meiri hagsmuni vera með því að þetta verði samþykkt á þessu vorþingi vegna þess að aðstæður sem við urðum mjög vör við núna á liðnum vetri kalla á það. Það er full ástæða til að setja upp þær girðingar sem þetta frumvarp setur vegna eignarhalds á orkuauðlindum sem er í rauninni aðalatriði þessa máls.

Mig langar í stuttri ræðu að gera samt aðeins grein fyrir athugasemdum sem ég hef við þetta mál og er ekki alls kostar sannfærður um að menn hafi hugsað til enda en tel að væri þá hægt að bæta úr núna milli 2. og 3. umr. Í fyrsta lagi þegar kemur að stöðu lítilla hitaveitna og lítilla rafveitna þá er lagagrunnurinn bak við þá þætti afar brotinn og hefur raunar verið það. Staða þessara aðila gagnvart lögunum er ekki nógu trygg og sumt af því sem við nú setjum í ákvæði varðandi opinbera eigu getur orðið þessum aðilum mjög þungbært. Sömuleiðis eru hér með þessum lögum að nokkru leyti settar þrengri almennar rekstrarskorður sem eiga alls ekki við þegar um lítil fyrirtæki er að ræða. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því — þrátt fyrir breytingartillögur meiri hlutans hér í 9. lið á þskj. 1063, þar er einmitt talað um hitaveitur sem starfi á grundvelli einkaleyfis. Þar er að nokkru leyti komið til móts við þá gagnrýni sem kom frá Framsóknarflokknum við 1. umr., þ.e. að það gæti verið mjög óheppilegt að leggja þær skyldur á litlar bændaveitur að þær væru að meiri hluta í opinberri eigu. Það á í rauninni alls ekki við vegna þess að litlar veitur eru oft settar upp á stöðum þar sem engar forsendur eru fyrir hið opinbera að koma inn með starfsemi sína. Við erum jafnvel að tala um aðstæður þar sem hagkvæmni eða rekstrargrunnur eru ekki það trygg að líkur séu til þess að sveitarfélög sem ná yfir mun stærra svæði séu tilbúin til að fara út í slíkan rekstur. Þetta getur samt verið eitthvað sem einstakir landeigendur, einstakir bændur, telja rétt að gera eða vilja hætta sínu fé til en þá er mikilvægt að skapa þeim ekki erfiðari skilyrði en ástæða er til.

Ég veit að meiri hluti nefndarinnar reyndi að koma til móts við þessi sjónarmið í 9. lið breytingartillagnanna en ég held í raun og veru að með því að 5. gr. var jafnframt breytt við meðferð frumvarpsins, þar sem kveður á um tveggja milljarða árlegar rekstrartekjur, hafi botninn dottið undan því að bændum sé vörn að þessu. Það er svolítið flókið að útskýra þetta en hvergi er sú skilgreining á einkaleyfi hitaveitna sem takmarkar þá skilgreiningu þannig að hún eigi ekki við um litlar veitur. Það er ekkert sem segir að það megi ekki beita þeirri skilgreiningu á veitu sem t.d. er ætlað að ná yfir eitt sumarbústaðaland eða lítið byggðahverfi þar sem búa þrjár, fjórar fjölskyldur. Einn af þessum fjórum væri eigandi en hinir kaupendur. Í raun og veru er ekki að sjá að það sé neitt sem tryggir að ekki sé hægt að beita ýtrustu lagareglum þessara laga gagnvart þess konar veitum. Ég held reyndar að í eldri lögum hafi þessi staða líka verið ótrygg. Það má kannski segja að menn hafi ekki gengið eftir öllum þeim atriðum sem væri hægt að gera þar en það segir ekki að það verði ekki gert í framtíðinni.

Ég held því að það væri mikilvægt að setja inn sérákvæði varðandi litlar veitur og þetta eigi líka við um raforkuveiturnar vegna þess að í raforkulögum frá 2003 er engin skilgreining á dreifiveitu raforku sem þrengir það. Það á bara við um fyrirtæki sem sér um dreifingu raforku á afmörkuðu svæði eins og segir í 3. gr. raforkulaga. Þar kemur því aftur upp sama staða og einn af vaxtarbroddum í sveitum á Íslandi í dag er rekstur smávirkjana. Þó að smávirkjanirnar hafi að mestu leyti miðaðist við að selja beint inn á dreifiveitur Rariks er vel hægt að ímynda sér að það gæti komið upp önnur staða í þessum efnum þannig að menn vildu fara út að selja inn á t.d. sumarbústaðalönd sem þeir byggja upp sjálfir eða sumarbústaðalönd sem þeir þess vegna hafa selt einstökum aðilum rétt til bygginga á. Ég held því að staða þessara litlu fyrirtækja sé þrengd um of með þessum lagabálki. Ég bið nefndina að taka þessa hluti sérstaklega til skoðunar milli umræðna.

Það er annað atriði sem er umhugsunarefni við þessa lagasetningu. Ég hef ekki á móti því að við skiptum þessum rekstrarþáttum upp. Ég held að það sé nauðsynlegt þó að ég hafi svo sem mjög takmarkaða trú á því að okkur takist alveg í nánustu framtíð að koma á samkeppni í þessum geira þá er sjálfsagt að reyna að búa til lagaumhverfið þannig að það geti orðið og það tekst kannski í fyllingu tímans. En við skulum hafa það á hreinu að um leið og við gerum þetta opnum við á vissan hátt fyrir möguleikana á því að selja ákveðna þætti eins og svo sem fleiri hv. þingmenn hafa komið hér inn á. Það eru ekkert endilega lítil fyrirtæki. Það má alveg ímynda sér að það séu á vissan hátt sköpuð skilyrði fyrir einkavæðingu Landsvirkjunar. Það er nokkuð sem maður hlýtur að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að hvort að búi að baki þessari lagasetningu. Það væri mjög gott að fá afdráttarlausar yfirlýsingar frá iðnaðarráðherra og fulltrúum meiri hluta í iðnaðarnefnd um þetta atriði. Það væri að mínu viti afar óheppilegt ef menn færu þá leið. Það er þess vegna mikilvægt að þeir af fulltrúum meiri hlutans sem hafa sömu skoðun láti það koma fram hér í umræðum við þetta lagafrumvarp að ekki standi til að skapa jarðveg fyrir slíka einkavæðingu.