135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[21:55]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég ætla að inna hv. þm. Bjarna Harðarson eftir. Hann ræddi hér sérstaklega um hitaveiturnar. Nú liggur fyrir að raforkutilskipun Evrópusambandsins, sem er í raun og veru grundvöllur að þessu máli öllu, nær ekki til hitaveitna. Það er í raun og veru heimatilbúið mál á síðari stigum hér að innleiða líka þau grundvallarsjónarmið sem eru í raforkutilskipun Evrópusambandsins í hitaveitur. Ég vil því inna hann eftir því hver afstaða Framsóknarflokksins er til þess, hvort Framsóknarflokkurinn hafi strax í upphafi verið þeirrar skoðunar að þessi ákvæði ættu að taka til hitaveitnanna sömuleiðis.

Hitt sem ég vil spyrja hv. þingmann um er að nú verður gert skylt að skipta upp starfsemi, t.d. eins og Orkuveitu Reykjavíkur. Það mun t.d. þýða að þættir í rekstri Orkuveitunnar eins og fráveitan, holræsin, lenda í félagi sem má þá selja 49% í samkvæmt frumvarpi þessu og breytingartillögum meiri hlutans. Ég vil gjarnan heyra viðhorf hans til þess hvort honum finnist það heppilegt að verkefni eins og holræsin, sem eru auðvitað enginn samkeppnisrekstur og verða það aldrei, geti verið allt að 49% — eða þó að það væri að 1/3 — í eigu einkaaðila. Þetta eru viðhorf sem mér finnst mjög mikilvægt að fá fram í þessari umræðu.